Íslenska ríkið hefur keypt til baka skuldabréf að  nafnvirði 397,6 milljónir evra af eigin skuldabréfum sem hafa gjalddaga 15. júlí 2020 en í upphafi voru gefin út bréf fyrir 750 milljónir evra með 2,50% nafnvexti.

Þann 6. desember síðastliðið bauð ríkið í skuldabréfin og gilti boðið þangað til í gær, og fá skuldabréfaeigendur sem ákváðu að selja 106,957% af nafnvirði bréfa sinna auk áfallinna vaxta. Það gerir um 425 milljónir evra, eða sem samsvarar tæplega 53 milljörðum íslenskra króna, sem ríkið mun því greiða út 20. desember næstkomandi.

Eftirstöðvar skuldabréfaútboðsins á sínum tíma verða þá 352.422.000 evrur sem eru eins og áður segir á gjalddaga 15. júlí 2020 að því er fram kemur í fréttatilkynningu .