Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Nordica Inc. og Jóns Geralds Sullenberger um áfrýjunarleyfi í riftunarmáli þrotabús Kosts gegn þeim. Riftun á rúmlega 11,7 milljón króna greiðslu stendur því óhögguð.

Málið snerist um þrjár greiðslur sem Kostur innti af hendi til Nordica Inc. en eigendur þess félags eru Jón Gerald og eiginkona hans. Báðar greiðslurnar voru inntar af hendi eftir frestdag, í janúar 2018, en reikningar vegna þeirra höfðu verið gefnir út í mars og apríl 2017.

Bæði héraðsdómur og Landsréttur féllust á riftunina en þó ekki á grundvelli sama ákvæðis gjaldþrotaskiptalaganna. Upphæðin féll óskipt á Nordica og Jón Geralds þar sem báðir aðilar höfðu haft hag af greiðslunum auk þess að þær höfðu falið í sér ótilhlýðilega mismunun gagnvart kröfuhöfum Kosts.

Jón Gerald og Nordica fóru fram á áfrýjunarleyfi á þeim grunni að ýmis atriði í dómi Hæstaréttar gætu haft almennt gildi. Meðal þess sem þau tefldu fram var hvaða áhrif tekjuskattsinneign gæti haft við mat á ógjaldfærni félags. Einnig undir hvaða kringumstæðum fyrirsvarsmaður félags sé persónulega ábyrgur gagnvart riftanlegum greiðslum.

Hæstiréttur taldi hins vegar að úrslit málsins myndu ekki hafa verulegt almennt gildi samanborið við aðrar dómsúrlausnir sem áður hafa fallið um sambærileg álitaefni. Beiðninni var því hafnað.