Fjarskiptafélagið Sýn gerði upp sölu á á óvirkum frarsímainnviðum til bandaríska fjarskiptafélagsins Digital Bridge í desemb er og fékk fyrir 6,94 milljarða króna. Í tilkynningu Sýnar í dag segir að félagið hafi þegar greitt upp 2 milljarða af langtímalánum við Landsbankann en til að setja það í samhengi þá námu langtímaskuldir Sýnar alls 12,5 milljörðum í lok september. Þá verði notað hluta söluverðs til fjárfestinga í rekstri en einnig verður ráðist í endurkaup á hlutafé félagsins.

Stjórn Sýnar hefur ákveðið að hefja endurkaup á eigin hlutum fyrir allt að 9,9% af útistandandi hlutum félagsins eða fyrir 2 milljarða króna. Hluthöfum Sýnar býðst að gera tilboð um að selja bréf sín til félagsins, með milligöngu Markaðsviðskipta Landsbankans sem annast endurkaupin, fyrir kl 18 á sunnudaginn næsta, 9. janúar. Niðurstöður verða tilkynntar morguninn eftir, 10. janúar.

Sjá einnig: Gengið frá innviðasölu til Digital Bridge

Digital Bridge keypti um 200 sendastaði frá Sýn og 167 af Nova en talið er að heildarkaupverð nemur um 13 milljörðum króna að meðtöldum hluta Nova í viðskiptunum. Samhliða viðskiptunum er gerður langtímasamningur, sem tryggja mun áframhaldandi aðgang seljenda að hinum óvirku farsímainnviðum en allur virkur farsímabúnaður verður áfram í eigu Sýnar og Nova.

Viðskiptablaðið sagði frá því nýlega að vinna er á lokametrunum við 8-9 milljarða lánsfjármögnun Arion banka og nýs innviðasjóðar Kviku, sem m.a. er fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fleiri stofanafjárfestum vegna kaupanna.