Stafrænar tekjur breska dagblaðsins Guardian (og helgarblaðsins Observer) fóru á liðnu fjárhagsári í fyrsta sinn fram úr tekjum af pappírsútgáfunni. Stafrænu tekjurnar hækkuðu um 15% milli ára, en tekjurnar af blaðinu lækkuðu um 10%. Í lok liðins mánaðar hafði Guardian samtals um 570.000 áskrifendur og styrktarmenn, en undanfarið ár lagðist því til einskiptisstyrkur frá 375.000 manns, mest í Bretlandi en drjúgur hluti barst utan úr heimi.

Guardian skilaði hóflegum hagnaði (fyrir skatta) í fyrsta sinn í allnokkur ár, en þar hefur átt sér stað mikil fjárhagsleg endurskipulagning eftir að sjálfseignarstofnunin að baki því rambaði á barmi gjaldþrots fyrir nokkrum árum. Stefnt er að því að reksturinn komist í jafnvægi fyrir lok næsta árs.