Guðjón Sigurbjartsson, viðskiptafræðingur, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Neytendasamtökunum. Nýr formaður verður kjörinn þann 27. október næstkomandi. Þetta kemur fram á Vísi .

Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um framboð Guðmundar Harðar til formanns Neytendasamtakanna.

Í tilkynningu segist Guðjón vilja vinna að hagsmunum neytenda og almennings á breiðum grundvelli.

Hann segir að breyta þurfi landbúnaðarstefnu stjórnvalda þannig að virkir bændur fái grunnstuðning og frelsi til að bæta eigin hag með því að keppa á markaði. „Frelsi á þessu sviði mun að sjálfsögðu bæta hag neytenda eins og á öðrum sviðum atvinnulífsins," segir Guðjón.

„Huga þarf að upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils sem framtíðarlausnar en þangað til þarf að vinna að aukinni samkeppni á lánamarkaði til að knýja niður vexti.“

Guðjón hefur starfað fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar.

Hann hefur jafnframt starfað fyrir Neytendasamtökin og er framkvæmdastjóri samtakanna um Betri Spítala á betri stað.