Guðjón Rúnarsson mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja frá og með 1. október næstkomandi. Kemur þetta fram í bréfi sem hann sendi forsvarsmönnum aðildarfélaga samtakanna. Þetta kemur fram á vef SFF .

Guðjón verður samtökunum innan handar fyrst um sinn en Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur SFF, mun sinna málefnavinnu SFF þangað til nýr framkvæmdastjóri verður ráðinn.

Guðjón hóf störf árið 2000, fyrst hjá Sambandi íslenskra viðskiptabanka með umboð til að leita sameiningar samtaka á fjármálamarkaði sem leiddi til stofnunar Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja árið 2001.  Í lok árs 2006 var skrefið stigið til fulls og Samtök fjármálafyrirtækja tóku til starfa í ársbyrjun 2007 sem heildarsamtök fjármálafyrirtækja og vátryggingafélaga á Íslandi.

Í bréfinu segir Guðjón að íslenskur fjármálamarkaður hafi á þessum tíma gengið í gegnum mikla breytingatíma.  Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafi yfir á þessu árabili sé ljóst að hann standi í dag mun traustari fótum en um aldamót.

Í tilkynningu þakkar Birna Einarsdóttir, formaður SFF, Guðjóni fyrir vel unnin störf í þágu félagsins í gegnum tíðina. Hann hafi svo sannarlega staðið vaktina í miklum ólgusjó. Fyrir hönd stjórnar óskar hún honum farsældar í nýjum verkefnum.