Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður óskar eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, og þar með gefur hann kost á sér að leiða annað kjördæmið í höfuðborginni.

Agi, ráðdeild og langtímahugsun

„Guðlaugur Þór leggur áherslu á að á komandi kjörtímabili verði þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálunum á undanförnum árum fylgt fast eftir og að agi, ráðdeild og langtímahugsun verði höfð að leiðarljósi. Þá telur hann brýnt að innleiða lausnir fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði ásamt því að hlúa betur að eldri borgurum og öryrkjum,“ segir í fréttatilkynningu um framboðið.

Fjárlaganefnd og trúnaðarstörf

Á kjörtímabilinu gegndi Guðlaugur Þór varaformennsku í fjárlaganefnd og varaformennsku þingflokks Sjálfstæðisflokksins, en hann er einn reynslumesti þingmaður flokksins og hefur hann setið á þingi frá árinu 2003.

Hann hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn, var hann borgarfulltrúi frá 1998-2006, og ráðherra heilbrigðismála frá 2007-2009. Hann gegnir jafnframt formennsku í þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins, og í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES. Jafnframt er hann varaformaður AECR, samtaka íhalds- og umbótaflokka í Evrópu.

Guðlaugur Þór er giftur Ágústu Johnson framkvæmdastjóra og búa þau í Grafarvogi ásamt fjölskyldu sinni.