Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, vill ólmur að Bretar gangi aftur í fríverslunarsamtökin EFTA að því er kemur fram í umfjöllun breska blaðsins Telegraph um málið. Þar staðfestir hann að hann hafi rætt við Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, um möguleikann á því að Bretar gætu gengið í EFTA.

„Þetta er hugmynd sem þarf að skoða nánar og að mínu mati er hugmyndin mjög áhugaverð,“ sagði Guðlaugur Þór við Telepgraph. EFTA var stofnað árið 1960 og Bretland var einn af stofnmeðlimunum, en hætti í samtökunum þegar það gekk í Evrópusambandið 1973. Í EFTA eru Noregur, Ísland, Liechtenstein og Sviss og hafa samtökin undirritað 27 fríverslunarsamninga við 38 samstarfsaðila. Að sögn Guðlaugs myndi það gefa Bretum aukið vægi að vinna með öðrum ríkjum.

Guðlaugur Þór er ekki fyrsti íslenski utanríkisráðherrann sem viðrar þessa hugmynd fyrir Bretum, en Lilja Alfreðsdóttir, sem gegndi embættinu á undan honum bauð Breta einnig velkomna á málþingi síðastliðið haust, eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um. Eins og sakir standa þá er Ísland í forsæti í EFTA. Bretar eru einn stærsti viðskiptaaðili Íslands.