Gunnar jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, vildi sjá Seðlabankann hækka stýrivexti enn meira við síðustu stýrivaxtaákvörðun þann 19. maí síðastliðinn þegar meginvextir bankans voru hækkaðir úr 0,75% í 1%. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabankans.

Allir nefndarmenn voru þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hækka vexti bankans til þess að viðhalda kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu og ræddi nefndin um að hækka vexti um 0,25 eða 0,5 prósentur.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lagði til að vextir bankans yrðu hækkaðir um 0,25% og studdu allir nefndarmenn þá tillögu að Gunnari undaskildum sem „hefði fremur kosið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur“.

Í fundargerðinni segir að helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,25 prósentur hafi verið að þrátt fyrir kröftuga innlenda eftirspurn og batnandi efnahagshorfur væri samt sem áður mikið atvinnuleysi og batinn brothættur. Einnig var bent á að skýra mætti hluta aukningarinnar í verðbólgu með tímabundnum þáttum sem myndu fjara út á seinni hluta þessa árs og væru langtímaverðbólguvæntingar ennþá nálægt markmiði á marga mælikvarða.

„Mikilvægt væri því að sporna gegn auknum verðbólguþrýstingi með því að hækka vexti en taka minni skref til að varðveita efnahagsbatann á sama tíma. Jafnframt var bent á að færa mætti rök fyrir því að hækkun vaxta um 0,25 prósentur fæli í sér skýr skilaboð um að nefndin hefði tækin til þess að koma verðbólgu aftur í markmið og myndi ekki hika við að beita þeim,“ segir í fundargerðinni.

Rökin fyrir því að hækka vexti um 0,5 prósentur voru helst þau að verðbólga hefði aukist hratt að undanförnu og verið yfir efri fráviksmörkum markmiðsins frá áramótum. Þótt óvissa væri enn til staðar hefðu efnahagshorfur batnað umtalsvert og ljóst væri að innlend eftirspurn væri meiri en áður var talið og slakinn í þjóðarbúskapnum minni auk þess sem hann hyrfi fyrr. Einnig hefðu verðbólguvæntingar, einkum til skamms tíma, hækkað að undanförnu og verðbólguálag til lengri tíma væri yfir markmiði.