Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, minnir á það að verkalýðshreyfingin hefur lagt á það áherslu á síðustu árum að bæta stöðu þeirra tekjulægstu með því að hækka lágmarkslaun umfram meðallaun. „Á sama tíma hafa stjórnmálamenn tekið ávinning til baka með skerðingum á skattleysismörkum og lækkun barna- og húsnæðisbóta,“ skrifar Gylfi Arnbjörnsson í pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Forseti ASÍ bendir á að enginn vafi sé á því að þjóðin vilji setja heilbrigðismálin í hæsta forgang og lítill vilji sé til þess að auka einkarekstur í heimbrigðisþjónustunni, að mati Gylfa. „Almenn samstaða er um að tryggja beri greiðan aðgang að þjónustu heilbrigðisstofnana og lyfjum án þess að efnahagur einstaklingsins ráði för. Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga skrifuðu meira en 80.000 manns undir áskorun til stjórnmálamanna um að setja heilbrigðismálin í forgang. Hvernig stendur á því að heilbrigðisþjónustan er enn fjársvelt og kostnaður sjúklinga of mikill?“ spyr Gylfi.

Framtíðarsýn Gylfa

Gylfi bendir einnig á að ný tækni breytir nú vinnumarkaðnum á ógnarhraða og því sé hægt að velta því fyrir sér hvort að við séum í raun að undirbúa börnin okkar fyrir þau störf sem verða til á næstu árum. Forseti ASÍ spyr enn fremur hvort að við séum að gefa fullorðnu fólki á vinnumarkaði nauðsynleg tækifæri til að endurmennta sig fyrir þessa framtíð?

Ljóst er að við höfum verk að vinna á ýmsum sviðum velferðar til að tryggja öllum réttláta hlutdeild í hagsældinni. Alþýðusambandið hefur um árabil krafist þess að tengt verði með markvissum hætti á milli þess sem við köllum félagslegur stöðugleiki og hins efnahagslega stöðugleika. Ef stjórnmálamenn og atvinnurekendur vilja gera sér von um að almenningur axli meiri ábyrgð á hinum efnahaglega stöðugleika verður félagslegur stöðugleiki að fylgja með í pakkanum. Almenningur í landinu á allan rétt á því að búa við öryggi í afkomu sinni, njóta almennrar velferðar og geta verið viss um að samfélagið aðstoði ef til alvarlegra áfalla kemur. Skilningsleysi á þessu gerir það að verkum að vantraustið vex sem aldrei fyrr,“ skrifar Gylfi að lokum.