Englendingar sem ferðast úr landi í heimildarleysi verða sektaðir um 5 þúsund pund, eða sem nemur ríflega 875 þúsund íslenskra króna. Viðurlög þessi eru liður í hertum landamæraaðgerðum Englands og gilda til júníloka. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Heilbrigðisráðherrann, Matt Hancock, sagði stjórnvöld upphaflega hafa áformað að endurskoða millilandaferðir í apríl og að enn komi til greina að heimila slíkar ferðir frá 17. maí, en sektarákvæðunum hafi verið bætt við löggjöfina ef ske kynni að tilslakanir frestist.

Ákvörðun um hvort einstaklingar muni geta ferðast án undanþágu vegna starfs eða náms mun verða tilkynnt 12. apríl. Vonir um tilslakanir fyrir sumarið hafa aftur á móti dvínað undanfarið í ljósi vaxandi COVID smitfjölda í Evrópu.

Fregnir af sektarákvæðunum höfðu neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa flugfélaga á borð við easyJet, IAG sem á British Airways og Jet2 nú í morgunsárið.

Þess má geta að viðurlög þessi taka aðeins til Englands, ekki annarra landa Bretlands.