Fjölgun launagreiðenda á Íslandi á tólf mánaða tímabili fram til júlí á þessu ári nam 695, sem er 4,2% frá síðustu 12 mánuðum þar á undan. Heildarfjöldi launagreiðenda á tímabilinu var að jafnaði 17.217 að því er segir í frétt Hagstofu Íslands .

Greiddu þessir launagreiðendur að meðaltali um 185 þúsund einstaklingum laun á tímabilinu, sem er aukning um 8.700 samanborið við 12 mánaða tímabil ári fyrr. Er það 4,9% fjölgun milli ára.

„Skipt eftir atvinnugreinum hefur launþegum fjölgað milli ára hjá launagreiðendum í byggingariðnaði og ferðaþjónustu. Þó hefur dregið úr hraða vaxtar. Launþegum hefur fækkað í sjávarútvegi,“ segir í frétt Hagstofunnar.

Launþegum í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fjölgaði um 14% frá júlí 2016 til júlí 2017, eða um 1.600 manns. Launþegarnir voru 13 þúsund við lok tímabilsins en launagreiðendurnir 2.551. Í einkennandi greinum ferðaþjónustu hafði launþegum fjölgað um 9%, á sama tíma, eða um 2.400 manns. Launþegarnir í þeim greinum voru 29.900 við lok tímabilsins en launagreiðendurnir 1.870.