„Hagvöxtur er enn hraður og spennan talsverð í hagkerfinu. Er það m.a. sýnilegt á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi er mjög lítið og atvinnuþátttaka með því hæsta sem mælst hefur hér á landi. Hægari hagvöxtur er í þessu ljósi það sem hagkerfið þarf til að forðast ofhitnun,“ segir Ingólfur í grein sinni á vef samtakanna .

„Líklegt má telja að enn hægi á vextinum á næstu misserum m.a. vegna hægari vaxtar í þjónustuviðskiptum við útlönd en nokkuð hefur dregið úr vexti í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarið. Líklegt er að samhliða hægari vexti slakni á spennunni í hagkerfinu þ.e. að það hægi enn frekar á fjölgun starfa og að atvinnuleysi fari að aukast á ný.“

Nokkuð dregið úr vexti iðnaðar

Segir hann að byggingariðnaður og mannvirkjagerð sé ein af þeim greinum hagkerfisins sem hafi verið að vaxa hvað hraðast undanfarið enda uppsveiflan í greininni ein af driffjöðrum hagvaxtarins um þessar mundir. „Nú hægir hins vegar á þeim vexti þó að hann sé enn hraður,“ segir Ingólfur.

„Launþegum í iðnaði fjölgaði um 3,8% í júlí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra. Er það dágóður vöxtur. Nokkuð hefur hins vegar dregið úr vextinum í greininni undanfarið en hann mældist ríflega 7% allan seinni helming síðastliðins árs og 5,4% á fyrri helmingi þessa árs. Var vöxturinn í júlí sá minnsti sem mælst hefur í greininni síðan í upphafi árs 2015.“

Farið að draga saman í hagvexti hér og erlendis

Segir hann að iðnaðurinn hafi átt nálega eitt af hverjum fjórum nýjum störfum sem fæðst hafi í hagkerfinu á fyrri hluta ársins.

„Efnahagsástandið hér á landi hefur verið talsvert úr takti við það sem hefur verið í öðrum iðnríkjum þar sem hagvöxtur hefur verið hægur og slaki í mörgum hagkerfum. Verkefni hagstjórnar hefur því verið talsvert annað hér en víðast hvar. Endurspeglast það bæði í stöðu peningamála og opinberra fjármála,“ segir Ingólfur.

„Nú er hins vegar að draga saman með hagvexti hér og erlendis. Þannig var árstíðarleiðréttur hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 2,7% hér á landi samanborið við 1,7% í Bretlandi, 2,2% í Bandaríkjunum og 2,1% í Þýskalandi.“