Austurríski þjóðarflokkurinn, sem er breiður miðhægriflokkur, jók fylgi sitt í kosningunum í landinu úr 24% í 31,4% undir forystu nýs leiðtoga, hins 31 árs gamla Sebastian Kurz, sem lagði áherslu á ábyrga innflytjendastefnu og að draga úr skriffinnsku í landinu.

Er búist við því að Kurz geti orðið yngsti leiðtogi ESB lands, en löng hefð er fyrir því í Austurríki að formaður stærsta flokksins verði kanslari.

Tók á misnotkun hælisleitendakerfisins

Kurz hefur verið utanríkisráðherra í samsteypustjórn Þjóðarflokksins og Sósíaldemókrata, þar sem hann tók hart á misnotkun hælisleitendakerfisins og er honum þakkað að gripið var í taumana þegar opnaðist fyrir mikinn straum fólks í gegnum balkanskagann til miðevrópu árið 2015.

Í kosningabaráttunni lofaði hann meðal annars að draga úr bótum fyrir hælisleitendur, þar með talið að þeir hefðu ekki rétt á velferðargreiðslum fyrstu fimm árin í landinu, en einnig lofaði hann því að halda Evrópusambandinu út úr málefnum ríkisins.

Í kosningunum nú fór síðarnefndi flokkurin fór úr því að vera stærsti flokkurinn í að verða þriðji stærsti, þó hlutfall þeirra héldist í 27% atkvæða.

Óvinskapur við leiðtoga Sósíaldemókrata

Ólíklegt er að talið að Kurz muni semja við Sósíaldemókrata, meðal annars vegna opinbers óvinskipar Kurz við formann flokksins. Heldur er líklegra að Austuríski Frelsisflokkurinn komist aftur í ríkisstjórn líkt og hann gerði undir forystu Jörg Haider eftir kosningarnar árið 2000.

Frelsisflokkurinn jók fylgi sitt úr 20,5% í 27,4% svo samanlagt ráða flokkarnir tveir yfir 114 af 183 þingsætum á austurríska þinginu. Flokkurinn á rætur sínar að rekja til hreyfinga frjálslyndra þjóðernissinna sem vildu sameiningu þýskumælandi landa sem höfnuðu hvort tveggja sósíaldemókratisma og kaþólskri pólitík hefðbundinna hægriafla sem runnu inn í Þjóðarflokkinn.

Fyrsti leiðtogi flokksins var fyrrum þjóðernissósíalisti og starfaði fyrir stormsveitir Hitlers, en árið 1979 var flokkurinn meðtekinn í samtök frjálslyndra í Evrópu og starfaði í ríkisstjórn sósíaldemókrata.

Jörg Haider leiddi flokkinn í ríkisstjórn

Undir forystu Jörg Haider sem tók við forystu í flokknum árið 1986 jókst fylgi hans mikið samfara aukinni áherslu á hægrisinnaðan popúlisma. Í kjölfar umdeildra tillagna í innflytjendamálum árið 1993 slitu stuðningsmenn klassískrar frjálslyndisstefnu sig frá flokknum og runnu á endanum inn í flokkinn NEOS sem nú hlaut 5% atkvæða.

Í kosningabaráttunni sakaði Frelsisflokkurinn hinn Nýja Þjóðarflokk eins og Kurz kallaði flokkinn um að stela stefnumálum sínum og vera að villa um fyrir fólki. Lengi vel hefur flokkurinn verið einn um hituna þegar rætt hefur verið um innflytjendamál í landinu á öðrum nótum en að landið eigi að vera opið án skilyrða og hafa þeir grætt á því að hefðbundnu stjórnmálaflokkarnir höfðu lítið þorað að snerta á málefninu.