Erna Solberg forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær og fyrradag. Helstu málin sem rædd voru í kosningabaráttunni snerust um skatta, innflytjendamál, orkustefnu og Evrópusamvinnu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær verður ríkisstjórn hennar því fyrsta hægristjórnin í landinu í þrjátíu ár til að sitja tvö kjörtímabil í röð.

Græningjar náðu ekki uppbótarlágmarki

Valt niðurstaðan að hluta til á því hvernig litlum flokkum myndi reiða af, en til að mynda náði Græningjaflokkurinn sem vildi stöðva alla olíuframleiðslu í landinu einungis einu þingsæti líkt og áður.

Náði flokkurinn ekki tilskyldu 4% marki til þess að fá jöfnunarsæti, en hins vegar náðu sósíalíski vinstriflokkurinn sem einnig studdi vinstriblokkina að bæta við sig 4 þingsætum og náði 11 sætum í heildina, sem og miðflokkurinn bætti við sig 8 sætum og er því með 18 sæti.

Allir hægriflokkarnir töpuðu sætum

Hægriflokkur Ernu Solberg tapaði þrem þingsætum og fékk 45 í heildina, en náði ekki að verða stærri en Verkamannaflokkurinn sem tapaði sex sætum og fékk 49 sæti í heildina. Framfaraflokkurinn sem situr í minnihlutastjórn með Hægriflokknum missti eitt þingsæti og er með 28 sæti í heildina.

Tveir minni flokkar sem styðja minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins komust einnig yfir 4% lágmarkið til þess að fá uppbótarþingsæti, annars vegar frjálslyndi flokkurinn Venstre sem tapaði einu þingsæti með 4,3% og hins vegar Kristilegir demókratar sem töpuðu tveimur þingsætum með 4,2%.

Kommúnistaflokkur náði þingsæti

Rauði flokkurinn, sem er yst til vinstri í norskum stjórnmálum með kommúnisma sem lokatakmark sitt fékk svo 2,4% sem dugði til að flokkurinn fengi mann inn á þing í fyrsta sinn. Á norska stórþinginu eru 169 sæti, en 150 þeirra eru kjörin í hverju af 19 fylkjum landsins, sem fá frá 4 upp í 19 þingsæti eftir íbúafjölda. Síðan hefur hvert fylki eitt jöfnunarsæti til viðbótar.

Miðað við þessar niðurstöður er þá ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar með 89 þingmenn en stjórnarandstöðuflokkarnir með 80 þingmenn.