Seðlabanki Íslands keypti íslenskar krónur fyrir ríflega 2,9 milljarða króna í síðustu viku. Bankinn hefur því dregið töluvert úr kaupum sínum á krónum en heildarkaup SB námu 10,7 milljörðum króna í vikunni áður. Þá hafði hann sjaldan ef einhvern tímann gripið jafn mikið á gjaldeyrismarkaði til að sporna gegn veikingu krónunnar.

Sjá einnig: Fer gegn eigin gjaldeyrisstefnu

Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði nam 6,7 milljörðum króna í síðustu viku. Því var velta Seðlabankans 44% af heildarveltu samanborið við 56% í vikunni áður þegar heildarvelta nam 19 milljörðum.

Sjá einnig: Gjaldeyrisstefna SB er skýr

Nettó kaup Seðlabankans á krónum nemur 31,8 milljörðum króna á þessu ári þar sem hann hefur keypt krónur fyrir ríflega 40,8 milljarða og selt fyrir níu milljarða. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaði það sem af er ári nemur 215 milljörðum, þar af eru viðskipti frá Seðlabankanum tæplega 50 milljarðar eða 23,3% af heildarveltu. Bankinn seldi síðast krónur 25. júní síðastliðinn.

Krónan hefur veikst um ríflega 20% gagnvart evrunni það sem af er ári. Evran fæst nú á tæplega 164,5 krónur en kostaði 136,5 krónur í upphafi árs. Á meðfylgjandi mynd er hægt að sjá þróun á gengi krónunnar síðasta mánuð, heildarveltu á gjaldeyrismarkaði og inngrip Seðlabankans.