Skeljungur hefur hækkað EBITDA afkomuspá sína fyrir árið 2021 um 300-500 milljónir króna. Uppfærð afkoma skýrist af betri árangurs og rekstri, bæði á Íslandi og í Færeyjum síðustu mánuðina, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Fyrri afkomuspá Skeljungs gerði ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) yrði á bilinu 3.000-3.400 milljónir króna. Félagið gerir nú ráð fyrir EBITDA hagnaðurinn verði á bilinu 3.500-3.700 milljónir króna. Neðri mörk afkomuspárinnar hækka því um 500 milljónir og efra markið um 300 milljónir. Skeljungur tekur fram að áætlun um fjárfestingar haldist óbreytt og verði á bilinu 750-850 milljónir króna.

Félagið bendir á að um sé að ræða bráðabirgðamat og upplýsingarnar byggja því ekki á endanlegu uppgjöri. Skeljungur mun birta uppgjör þriðja ársfjórðungs eftir lokun markaða þann 28. október næstkomandi.

Skeljungur hefur boðað hluthafafund þann 7. október næstkomandi þar sem hluthafar kjósa meðal annars um stofnun tveggja dótturfélaga og um breytingu á tilgangi í samþykktum félagsins  þannig að aukin áhersla verði lögð á skýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingarstarfsemi.