Júlíhækkun flugfargjalda til útlanda hefur ekki verið minni síðan 2013. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Markaðspunktum frá Greiningardeild Arion banka.

„Til þess að spá fyrir um þróun flugfargjalda höfum við notast við verðmælingar á netinu og söguleg gögn. Að þessu sinni gaf verðmæling okkar á netinu til kynna 28% hækkun á verði flugfargjalda á milli mánaða en tölfræðilíkan okkar, sem byggir á sögulegum gögnum, spáði 19% hækkun. Raunin varð hins vegar 6,3% hækkun á verði flugfargjalda til útlanda í júlí, sem er minnsta júlíhækkun frá árinu 2013, þegar flugfargjöld lækkuðu í verði," segir í greiningunni.

„Frá falli Wow air í lok mars hefur verðmæling Hagstofunnar gefið til kynna að flugfargjöld fari hækkandi. Í apríl mældist í fyrsta skipti hækkun á verði flugfargjalda á milli ára, en fram að því hafði árstakturinn lækkað í hverjum einasta mánuði frá september 2015. Í júlí mældist aftur lækkun á verði flugfargjalda til útlanda milli ára, þvert á væntingar okkar. Erfitt er að segja til um hvað veldur og hvort um sé að ræða vísi að þróun næstu mánaða. Miðað við stöðuna á flugmarkaði um þessar mundir, fréttir af fækkun flugferða og varnarbaráttu flugfélaga myndi maður ætla að flugfargjöld muni halda áfram að hækka og að júlímánuður gefi ekki forsmekk af því sem koma skal."