Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, um að hækka stýrivexti upp í 1,25%, kom greiningadeild Íslandsbanka nokkuð á óvart. Spá bankans, sem og annarra greinenda, hafði gert ráð fyrir því að stýrivextir yrðu óbreyttir sökum óvissu sem fylgdi Delta-bylgjunni.

Síðasti fundur peningastefnunefndar var í maí en þá var jafnframt tekin ákvörðun um að hækka stýrivextina um 25 punkta. Þótt vextir séu lágir í sögulegu samhengi hafa þeir ekki verið hærri frá því í maí í fyrra eftir skarpa lækkun vegna faraldursins.

„Ákvörðunin kom nokkuð á óvart en opinberar spár höfðu hljóðað upp á óbreytta vexti, þar á meðal okkar spá. Virðist sem peningastefnunefndin hafi minni áhyggjur af þróun yfirstandandi Delta-bylgju COVID-19 faraldursins hér á landi jafnt sem erlendis en innlendir og erlendir greiningaraðilar,“ segir í fréttabréfi greiningadeildarinnar. Batnandi efnahagshorfur virðist hafa vegið þyngra en breyttar verðbólguhorfur.

Í fréttabréfinu er einnig vikið að nýrri hagspá Seðlabankans. Þar er nú gert ráð fyrir auknum hagvexti í ár, alls 4% í stað 3,1%, en væntingar fyrir hagvöxt næsta árs færðar niður í 3,9% úr 5,2%. Í spá Seðlabankans virðist aðeins gert ráð fyrir um 3% fjölgun ferðamanna samanborið við spána frá í maí þrátt fyrir mikla ásókn þeirra í sumar.

„Hagvöxtur áranna 2021-2022 er því [nú] samanlagt lítið eitt minni en í maíspá bankans. Okkur þykir þetta ekki ríma alls kostar við þann bjartsýnistón sem sleginn var bæði í yfirlýsingu peningastefnunefndar og á kynningarfundinum í kjölfarið,“ segir í fréttabréfinu.

„Ljóst er af orðum og athöfnum forsvarsmanna Seðlabankans að þau telja aðgerðir bankans hafa verið árangursríkar hvað varðar að mýkja höggið vegna Kórónukreppuna. Undir það getum við heils hugar tekið. Hins vegar telja þau einnig að fullt tilefni sé nú til að bregðast við batnandi horfum sem fyrst með því að draga úr hvatanum sem slaki í peningastefnunni skapar. Þar setjum við spurningamerki við tímasetninguna,“ segir þar enn fremur.

Reynist spár Seðlabankans réttar reiknar greiningardeildin með því að næsta vaxtahækkun verði á þessu ári. Ella muni hún teygja sig inn á nýtt ár.