Ekki verður annað séð en að Hæstiréttur hafi í hvívetna fylgt dómafordæmum og haft hliðsjón af skýringum fræðimanna, á umboðssvikaákvæði hegningarlaganna, við heimfærslu háttsemi sakamanna í umboðssvikamálum í kjölfar hrunsins.

Þetta kemur fram í ritinu Dómar um umboðssvik í kjölfar bankahrunsins eftir Eirík Tómasson, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem gefið er út af Lagastofnun Háskóla Íslands. Í ritinu rekur Eiríkur dóma í umboðssvikamálum annars vegar fyrir efnahagshrunið og hins vegar eftir það. Í síðarnefnda flokkinn falla ellefu mál. Rétt er að taka fram að Eiríkur sat í þremur af dómunum ellefu, nánar tiltekið í málum er kennd voru við Landsbankann, Imon og Exeter-málinu hinu síðara.

Í málunum ellefu voru ákærðu sýknaðir í þremur, það er áðurnefndu Landsbankamáli, Vafningsmálinu og máli sem kennt var við SPRON. Í hinum átta voru sakborningar sakfelldir, í sumum tilfellum eftir að hafa verið sýknaðir af ákæru í héraðsdómi. Í hluta málanna var að auki ákært fyrir markaðssvik en í ritinu er einblínt á þann hluta málanna er laut að umboðssvikum.

„Sú niðurstaða vakti að vonum hörð viðbrögð hjá ýmsum af þeim, sem dómfelld voru, svo og verjendum þeirra. Jafnframt hafa aðrir, m.a. úr hópi lögfræðinga, gagnrýnt þessar málalyktir. Hins vegar virðist svo sem fræðimenn á sviði íslensks refsiréttar hafi látið hjá líða að tjá sig um umrædd dómsmál, a.m.k. í rituðu máli,“ ritar Eiríkur í inngangi og bætir við að með ritinu sé stefnt að því að bæta úr þeim skorti.

„[Löngu áður en árið 2008 gekk í garð mótaðist] það viðhorf í dómaframkvæmd að nægilegt væri að sanna að gerandinn hafi haft vitund um að atferli hans leiddi til verulegrar fjártjónshættu til að hann yrði dæmdur til refsingar. Vegna kröfunnar um ásetning nægir hins vegar ekki að færa sönnur á að sá, sem sökum er borinn, hafi vitað að háttsemi hans hefði í för með sér einhverja slíka áhættu, heldur verður hættan, sem við blasti, að hafa verið veruleg,“ ritar Eiríkur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .