Hæstiréttur hefur gefið Samkeppniseftirlitinu leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar sem kveðinn var upp 14. júní síðastliðinn. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Í tilkynningunni segir að þann 14. júní 2019 hafi Landsréttur staðfest að Byko hefði framið alvarleg brot á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði talið 65 milljónir króna sekt hæfilega en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði hækkað sekt Byko í 400 milljónir króna Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að sekt Byko skyldi vera 325 mkilljónir króna.

Landsréttur taldi að þegar brot Byko á samkeppnislögum væru „metin heildstætt [verði] að leggja til grundvallar að um sé að ræða alvarleg brot sem beinast gegn mikilsverðum hagsmunum neytenda. Brotin voru framin af ásetningi.“ Lækkun Landsréttar á þeirri sekt sem ákveðin var í héraði byggði m.a. á því að Landsréttur féllst ekki á það með Samkeppniseftirlitinu að Byko hefði einnig brotið gegn EES-samningnum," segir jafnframt í tilkynningunni.

Samkeppniseftirlitið telur að Landsréttur hafi ekki beitt banni EES samningsins við samkeppnishamlandi samráði með réttum hætti. Þá telur eftirlitið að sú sekt sem Landsréttur taldi hæfilega byggi á röngum forsendum og tryggi ekki nægjanleg varnaðaráhrif. Sökum þessa óskaði Samkeppniseftirlitið eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Hefur Hæstiréttur nú samþykkt þá beiðni Samkeppniseftirlitsins."