Nýsköpunarmiðstöð Íslands spilar mikilvægt hlutverk í íslenskri frumkvöðlasenu með starfi sem miðar að því að efla framgang nýrra hugmynda í íslensku atvinnulífi með virkri þátttöku í rannsóknarverkefnum og stuðningi við fyrirtæki. Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, segir þrátt fyrir að atvinnulífinu hætti til að verða einsleitara á uppgangstímum þá muni nýsköpun koma til með að spila lykilhlutverk í þeim miklu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, t.d. í umhverfismálum. Hún segir íslenskt efnahagslíf hafa notið góðs af starfi Nýsköpunarmiðstöðvar í gegnum tíðina sem skili nú þegar hundruðum milljóna í þjóðarbúið. Það sé svo eitt af hlutverkum stofnunarinnar að minna stjórnvöld á hverjum tíma á þá staðreynd.

Ráðgjöf og stuðningur við frumkvöðla

Nýsköpunarmiðstöð Íslands heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Kjarnastarfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar skiptist í tvö svið: „stuðning við frumkvöðla og fyrirtæki“ sem er öflug stuðningsþjónusta og þekkingarmiðlun fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki og „tæknirannsóknir og ráðgjöf“ en þar starfa um 90 sérfræðingar að hagnýtum rannsóknum og tækniráðgjöf á fjölbreyttum sviðum. Sigríður segir miðstöðina styðja við frumkvöðlana á margvíslegan hátt. „Til dæmis með fræðslufyrirlestrum, námskeið- um, handleiðslu, aðgangi að tólum og tækjum og segja má að þjónustan við frumkvöðla og fyrirtæki sé klæðskerasniðin að þörfum hvers og eins.“

Fjölmörg fyrirtæki hafa aðstöðu í húsakynnum frumkvöðlasetra Nýsköpunarmiðstöðvar og leigja þar skrifstofuaðstöðu gegn vægu gjaldi með aðgengi að fundaherbergjum og kaffiaðstöðu. „Þau fá faglega ráðgjöf og stuðning við framgang hugmynda sinna frá þeim fjölbreytta hópi vel menntaðs starfsfólks sem starfar á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og geta sótt sér þekkingu og reynslu frá þeim í gegnum handleiðsluviðtöl. Skapandi umhverfi og öflugt tengslanet fyrirtækja og starfsmanna Nýsköpunarmið- stöðvar Íslands getur reynst frumkvöðlum og fyrirtækjum sem eru að hefja störf sín gríðarlega mikilvægt,“ bendir Sigríður á.

Margt sækir í sama farið

Forkólfum í íslensku frumkvöðlastarfi verður gjarnan tíðrætt um þá miklu þekkingu sem losnaði um í kjölfarið efnahagshrunsins. Sú mikla þekking þurfti síðan að finna sér nýjan farveg sem efldi frumkvöðlastarf í landinu til muna. Sjálf hefur Sigríður sagt að eftirspurn eftir aðstöðu á frumkvöðlasetrunum hafi stóraukist allt frá því að efnahags- og bankahrunið skall á af fullum þunga á íslenskri þjóð og þjóðarbúi á haustmánuðum 2008 með vaxandi atvinnuleysi og erfiðleikum. „Fjölmargir aðilar hafa séð sér hag í að skapa sér sinn vettvang með þróun eigin viðskiptahugmynda og kappkostar Nýsköpunarmiðstöð Íslands að veita frumkvöðlum mikilvægan stuðning. Í kjölfar íslenska bankahrunsins var ákveðið að færa út kvíarnar svo um munaði þar sem „sprenging“ varð í eftirspurn eftir frumkvöðlarými.“

Nú er öldin hins vegar önnur á Íslandi, atvinnuleysi er í algjöru lágmarki og aukinn hagvöxtur og að sögn Sigríðar hættir atvinnulífinu til þess að verða einsleitara í svo sértækum uppgangi. „Það er svo margt sem sækir í sama farið þar sem uppgangurinn er mestur. Hættan er sú að þenslan í ferðamennsku og byggingageira sjái okkur fyrir svo miklum vexti, að eggjunum fjölgi í sömu körfunni og menn gleymi þörfinni á annars vegar rannsóknum og hins vegar raunverulegri nýsköpun.“

N ánar er fjallað um Sigríði og fjölda annarra frumkvöðlafyrirtækja í Frumkvöðlum , nýju aukablaði Viðskiptablaðsins.