Marel hefur undirbúið skráningu félagsins í alþjóðlega kauphöll í töluvert langan tíma í langan tíma. Í byrjun febrúar í fyrra var tilkynnt að verð væri að skoða skráningu og stóð valið lengi á milli kauphallanna í London , Amsterdam og Kaupmannahöfn.

Eftir síðasta uppgjör, sem birt var fyrir mánuði, kom í ljós að búið var að þrengja valið, sem þá stóð á milli Amsterdam og Kaupmannahafnar. Á aðalfundir Marel á miðvikudaginn var síðan tilkynnt að innan níu mánaða væri stefnt að skráningu í kauphöll Euronext í Amsterdam .

Hluti af undirbúningnum eru reglubundin kaup félagsins á eigin bréfum sem verða síðan endurútgefin. Það sem af er þessu ári hefur félagið keypti eigin bréf fyrir tæplega 4,8 milljarða króna og allt árið í fyrra keypti Marel eigin bréf fyrir tæplega 9 milljarða. Samtals hefur félagið keypt bréf fyrir 13,8 milljarða á 14 mánuðum. Þess ber að geta að í gegnum tíðina hafa þessi kaup einnig tengst yfirtökum. Þá hafa bréfin verið notuð sem gjaldmiðill í fyrirtækjakaupum.

Samhliða skráningunni í Amsterdam verður Marel áfram skráð í Kauphöll Íslands — tvíhliðaskráning.

„Þó að félagið hafi yfir 99% tekna utan Íslands og geri upp í evrum, þá eru hlutabréfin skráð í íslenskum krónum hér á landi,“ sagði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í viðtali í Áramótatímariti Viðskiptablaðsins. „Við teljum að fyrir alþjóðafyrirtækið Marel sé mjög mikilvægt að fá alþjóðlegt leiksvið fyrir hlutabréf félagsins. Verðmyndun og flæði bréfa frá degi til dags verður mun virkara í alþjóðlegri kauphöll. Það er mikill áhugi á félaginu en geta ýmissa fjárfesta til að fjárfesta á Íslandi er oft skilmálum háð. Það var mikið heillaskref fyrir Marel að skrá sig hér á landi árið 1992. Við höfum í dag breiðan hóp hluthafa sem hafa stutt vel við vaxtarsögu Marel. Skráning í alþjóðlega kauphöll er eðlilegt næsta skref í framþróun félagsins. Það er hvorki hollt fyrir íslenskan hlutabréfamarkað að eitt fyrirtæki vegi svo þungt né fyrir okkur að vera svo háð sveiflum á þessum örmarkaði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .