Hlutabréfagengi Solid Clouds lækkaði um 6,9% í dag á First North markaðinum og hafa bréfin lækkað um 24,8% sé miðað við útboðsgengið, sem var 12,5 krónur. Velta með hlutabréf tölvuleikjafyrirtækisins hefur þó verið takmörkuð síðustu daga og nam einungis 4,1 milljón króna í dag.

Á aðalmarkaði kauphallarinnar lækkaði Icelandair mest eða um 2,1% og standa bréf félagsins nú í 1,64 krónum. Marel lækkaði næst eða um 1,2% og eru bréf félagsins aftur komin undir 900 krónur og standa nú í 899 krónum.

Arion hækkaði mest í dag eða um 2,7% en fyrr í dag birti félagið drög að uppgjöri annars ársfjórðungs. Þar kom fram að afkoma félagsins væri umtalsvert umfram spár greiningaraðila. félagið  Hlutabréf félagsins hafa verið í mikilli kraftgöngu á hlutabréfamarkaði það sem af er ári og hafa hækkað um 76,4%.