Samband íslenskra sveitarfélaga segir að ekki halli á félagsmenn SGS né Eflingar með nokkru móti varðandi greiðslu iðgjalda í þá lífeyrissjóði sem félagsmenn greiði iðgjöld sín. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá sambandinu.

„Ákvæði um framlög launagreiðenda í lífeyrissjóði og séreignarsjóði eru samhljóða í öllum kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga og viðsemjenda þess, þ.e. 11,5% mótframlag í lífeyrissjóð og 2% mótframlag í séreignarsjóð. Þar hallar því ekki á nokkurn hátt á félagsmenn SGS eða Eflingar varðandi greiðslu iðgjalda í þá lífeyrissjóði sem félagsmenn greiða iðgjöld sín til," segir í tilkynningu frá sambandinu.

„Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga er starfsmönnum almennt gert skylt að eiga aðild að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, s.s. Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga eða LSR. Sú regla er þó með þeirri undantekningu að félagsmenn stéttarfélaga innan ASÍ greiða flestir í almenna lífeyrissjóði. Það fyrirkomulag hefur verið óbreytt um árabil og byggir á kröfum stéttarfélaganna sjálfra þar um, enda höfnuðu þau á sínum tíma boði um aðild að opinberu lífeyrissjóðunum," segir ennfremur.

„Nú liggur fyrir að lífeyrisréttindi starfsmanna sveitarfélaga sem greiða í almenna lífeyrissjóði geta í einhverjum tilvikum verið lakari en þeirra er greiða í opinberu sjóðina. Þar sem stéttarfélögin bera sjálf ábyrgð á eigin vali og kröfum þá hafnar Samband íslenskra sveitarfélaga alfarið að bæta eða bera ábyrgð á hugsanlegum afleiðingum þess. Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga eru engin ákvæði er styðja breytingar á núverandi fyrirkomulagi lífeyrissjóðsaðildar félagsmanna SGS og Eflingar eða á framlögum launagreiðenda í lífeyrissjóði sem þeir eiga aðild að.  Krafa SGS og Eflingar er því sú í raun að launagreiðendur greiði hærri kjarasamningsbundin iðgjöld í lífeyrissjóði félagsmanna sinna en aðrir starfsmenn sveitarfélaga njóta."

Þar sem kjaradeilunni hefur þegar verið vísað til sáttameðferðar embættis ríkissáttasemjara mun Samband íslenskra sveitarfélaga ekki tjá sig frekar opinberlega um málið á meðan það er í höndum embættisins.