Samkeppniseftirlitið segir fullyrðingar Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, um seinagang í samrunamálum N1 og Festar, og Haga og Olís, ekki eiga við rök að styðjast. Þvert á móti hafi ákvarðanir fyrirtækjanna sjálfra leitt til framlengingar rannsóknar eftirlitsins. Þetta kemur fram í pistli á vef stofnunarinnar .

Andrés Magnússon gagnrýndi í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku seinagang samkeppnisyfirvalda við vinnslu samrunamálanna tveggja, sem tók upp samanlagt um 9 mánuði í tilfelli Festar og N1 og um það bil ár fyrir Haga og Olís. Andrés sagði hvern mánuð sem líður vera fyrirtækjunum dýrkeyptan.

Í pistli Samkeppniseftirlitsins eru samrunarnir sagðir hafa verið rannsakaðir eins hratt og mögulegt hafi verið, og bent á að ferlið hafi verið innan þeirra tímafresta sem lög kveða á um. Upphaflegri rannsókn á samruna Haga og Olís hafi lokið þann 8. Mars, og á samruna N1 og Festar þann 17. apríl.

Eftirlitið hafi verið í þann mund að taka ákvarðanir í hvoru máli fyrir sig, þess efnis að samrunarnir yrðu ekki heimilaðir, en í báðum tilvikum hafi viðkomandi aðilar tekið einhliða ákvarðanir um að draga samrunatilkynningarnar til baka, til að komast hjá þeirri niðurstöðu.

Í kjölfarið hafi svo samrunaaðilarnir í báðum málum hafið ný samrunamál með tillögum að betri skilyrðum, til að freista þess að fá samþykki eftirlitsins.