Útgerðarfélagið Hafnarnes VER hefur sagt upp 20 manns í fiskvinnslu fyrirtækisins, en félagið greinir frá þessu í fréttatilkynningu. Uppsagnirnar munu taka gildi 1. desember næstkomandi. Segir fyrirtækið ákvörðunina vera þungbæra, en óumflýjanlega vegna nýrra reglna um um veiði á sæbjúgum.

„Uppsagnir dagsins í dag má rekja beint til vafasamrar og óvísindalegrar ráðgjafar Hafró við fiskveiðiráðgjöf á sæbjúgum og skeytingarleysis sjávarútvegsráðuneytisins gagnvart hagsmunum vinnandi fólks á landsbyggðinni og hag smærri bæjarfélaga. Ítrekað var bent á að þetta yrði óhjákæmileg afleiðing ákvörðunartöku þeirra en þessir aðilar hafa kosið að skella skollaeyrum við þeim aðvörunum," segir í tilkynningunni, sem óhætt er að segja að sé harðorð í garð Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegsráðherra og Hafró.

„Fyrr á árinu gaf Hafró út nýja fiskveiðiráðgjöf, þar sem lagt var til tæplega 60% samdrátt á sæbjúgnaveiðum frá fyrra fiskveiðiári. Ljóst er að enginn framleiðslustarfsemi getur staðið slíkan hráefnissamdrátt af sér án afleiðinga. Þvert á gagnstæð sjónarmið hefur Kristján Þór Júlíusson kosið að trúa ráðgjöf Hafró eins og nýju neti - eitthvað sem allir góðir skipstjórar gjalda varhug við, jafnvel þeir sem komnir eru á bakvið skrifborð. Sjávarútvegsráðherra hefur kosið að fela sig á bakvið ráðleggingar Hafró og þorir ekki að standa með þeim fyrirtækjum og því starfsfólki sem reiðir sig á veiðar sæbjúgna í stað þess að stíga í lappirnar gagnvart Hafró sem hefur viðurkennt að lítil þekkinga sé á tegundinni þar innanborðs og þörf sé á frekari rannsóknum, þekkingarleysið hefur þó ekki stuðlað að auðmýkt í vinnubrögðum þeirra sem hafa bein áhrif til hins verra á lífsviðurværi fjölda fólks á landinu," segir jafnframt í tilkynningunni.

Tilkynningu Hafnarnes VER má sjá í heild hér að neðan:

Fyrr í dag neyddist Hafnarnes VER hf til að grípa til þeirrar þungbæru ákvörðunar að segja upp rúmlega 20 manns í fiskvinnslu fyrirtækisins. Uppsagnirnar taka gildi 1. desember.

Fyrirtækið er einn af stærstu vinnuveitendum í Þorlákshöfn og er þetta reiðarslag fyrir okkur sem berum hag starfsfólks okkar sem og bæjarins fyrir brjósti. Bæjaryfirvöld hafa verið upplýst um gang mála enda hafa þau staðið þétt við bakið á okkur í þeirri baráttu sem við höfum átt gagnvart stjórnvöldum.

Aðdragandi þessarar ákvörðunar hefur verið nokkur, en við höfum róið öllum árum að því að koma í veg fyrir að þurfa að grípa til þessara aðgerða. Nýjar reglur um veiði á sæbjúgum hafa valdið þessu ástandi. Síðastliðið ár höfum við reynt eftir fremsta megni að glíma við sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknarstofnun Íslands, en við ofurefli hefur verið að etja. Uppsagnir dagsins í dag má rekja beint til vafasamrar og óvísindalegrar ráðgjafar Hafró við fiskveiðiráðgjöf á sæbjúgum og skeytingarleysis sjávarútvegsráðuneytisins gagnvart hagsmunum vinnandi fólks á landsbyggðinni og hag smærri bæjarfélaga. Ítrekað var bent á að þetta yrði óhjákæmileg afleiðing ákvörðunartöku þeirra en þessir aðilar hafa kosið að skella skollaeyrum við þeim aðvörunum.

Fyrr á árinu gaf Hafró út nýja fiskveiðiráðgjöf, þar sem lagt var til tæplega 60% samdrátt á sæbjúgnaveiðum frá fyrra fiskveiðiári. Ljóst er að enginn framleiðslustarfsemi getur staðið slíkan hráefnissamdrátt af sér án afleiðinga. Þvert á gagnstæð sjónarmið hefur Kristján Þór Júlíusson kosið að trúa ráðgjöf Hafró eins og nýju neti - eitthvað sem allir góðir skipstjórar gjalda varhug við, jafnvel þeir sem komnir eru á bakvið skrifborð. Sjávarútvegsráðherra hefur kosið að fela sig á bakvið ráðleggingar Hafró og þorir ekki að standa með þeim fyrirtækjum og því starfsfólki sem reiðir sig á veiðar sæbjúgna í stað þess að stíga í lappirnar gagnvart Hafró sem hefur viðurkennt að lítil þekkinga sé á tegundinni þar innanborðs og þörf sé á frekari rannsóknum, þekkingarleysið hefur þó ekki stuðlað að auðmýkt í vinnubrögðum þeirra sem hafa bein áhrif til hins verra á lífsviðurværi fjölda fólks á landinu.

Hafrannsóknarstofnun hefur í nýjum ráðleggingum sínum kosið að umbylta veiðifyrirkomulagi sæbjúgna. Teiknuð hafa verið upp ný veiðisvæði fyrir austan og vestan land, umrædd svæði virðast þó lítið eiga sameiginlegt við vísindalegar athuganir, veiðisögu eða upplýsingar frá þeim sem best þekkja til. Svo virðist sem tilviljun ein um hvar reglustrikan stóð á borðinu hafi ráðið meiru um skiptingu veiðihólfa heldur en önnur sjónarmið. Stærð hólfa margfalt stærri en eðlilegt mætti þykja og í engum takti við þær veiðar sem stundaðar eru.

Sem dæmi má nefna að stofnunin dró upp nýtt risavaxið veiðihólf á sunnanverðum Vestfjörðum og telur eðlilegt að ekki sé veitt þar meira en 50 tonn, um er að ræða svæði þar sem engin veiðireynsla lá fyrir þegar ráðgjöfin var gerð. Skammt frá á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið síðustu ár hólf sem er að líkindum meira en hundrað sinnum minna þar sem tvöfalt meiri veiði, rúmlega 100 tonn, hefur verið leyfð, Það er því ljóst að ekkert samhengi er á milli stærða hólfa eða reynslu þegar kemur að ráðgjöf Hafró. Þeir draga einfaldlega tölur úr hatti og eru með ágiskanir um hvaða magn eigi að veiða í hverju hólfi fyrir sig án þess að hugsa um mögulegan lærdóm sem má draga af veiði í hólfunum til framtíðar.

Sæbjúgnaveiði hefur verið stunduð í rúmlega áratug, tegund sem áður lá ónýtt á sjávarbotni hefur í krafti nýsköpunar, rannsókna og fjárfestinga skapað skilyrði heilsársstarfa fyrir tugi einstaklinga og aukinni þjónustu í smærri sveitarfélögum, þar á meðal störfum við umsýslu, flutninga og önnur afleidd störf. Í mörg ár hafa þeir sem vinna við sæbjúgnaveiðar gert lítið annað en að vinna upp í kostnað og borgað með sér í veiðum og vinnslu, á sama tíma lagt mikið á sig við að byggja upp markaði og viðskiptatengsl sem ekki hefur verið sjálfgefin vegferð enda margir gefist upp þegar gefið hefur á bátinn á þeirri grýttu leið. Nýjustu kveðjur til þessa fólks og starfsmanna þeirra frá sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins og þeirra aðila sem hann situr í skjóli, ríkisstjórnar og þingmanna - hóps sem talar hátt á tyllidögum um nauðsyn sterkra byggða á landsbyggðinni og öruggrar atvinnu - eru þær að kippa eigi undan þeim lífsviðurværinu.

Þessi ákvörðun er okkur hjá Hafnarnes VER mjög þungbær og vonumst við til að geta fundið leiðir til að snúa þessu við og halda áfram því góða starfi sem hefur verið unnið í sæbjúgnaiðnaðnum. Það er ekki sjálfgefið að tegund eins og sæbjúgu séu unnin hér við land og markaðir ekki öruggir, það er því þyngra en tárum taki að það skuli vera íslensk stjórnvöld með sjávarútvegsráðherra í fararbroddi sem koma mesta högginu á okkur.  Afla- og markaðsbrest getur maður skilið en óhæfa stjórnsýslu er erfitt að átta sig á.

Haldi menn áfram á þessari braut þá munu stjórnvöld stuðla að verstöðvabyggð í landinu í stað blómlegra og fjölskylduvænna bæjarfélaga víðsvegar um landið.