Hafrannsóknastofnun leggur til að heimilt verði að veiða allt að 54 þúsund tonn af loðnu á þessari vertíð. Ráðleggingin tekur mið af niðurstöðum bergmálsleiðangurs í desember og tveggja slíkra til viðbótar í janúar. Þetta kemur fram á vef Hafrannsóknarstofnunar .

Þar eru á ferð umtalsverð gleðitíðindi en undanfarnar tvær vertíðar hefur nær engin loðna fundist og því ekki verið veidd. Útlit var fyrir framan af að svo yrði einnig nú og hefði það þá orðið þriðja loðnulausa vertíðin. Síðast þegar loðna var veidd við Íslandsstrendur reyndist útflutningsverðmæti aflans kringum 18 milljarðar króna. Útgefinn kvóti þá var að vísu umtalsvert meiri þá en nú.

Í fyrri mælingunni í desember mældust 144 þúsund tonn en í þeirri síðari mældust 319 þúsund tonn. Mælingarnar tvær eru teknar saman og gefa mat upp á 463 þúsund tonn. Stefnt er að því að fara til frekari mælinga eftir helgi og leita þá norðar en gert hefur verið. Ráðgjöfin verður endurskoðun með tilliti til niðurstöðu þeirrar leitar.

„Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150 000 tonnum að teknu tilliti til afráns. Saman minnka þessar mælingar óvissu í stofnmati og samkvæmt því leiðir þessi mæling til veiðiráðgjafar upp á 54 200 tonn veturinn 2020/21 og kemur í stað fyrri ráðgjafar frá því í desember,“ segir í tilkynningu Hafró.