Hagar hafa sett útivistarverslunina Útilíf og Reykjavíkur Apótek í söluferli að því er fram kemur í nýbirtu uppgjöri Haga.

Eitt og hálft ár er síðan Hagar festu kaup á Reykjavíkur Apótekum, eða í mars 2019 . Kaupin voru samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í ágúst sama ár. Þá stefndu Hagar á að opna mun fleiri apótek undir merkjum Reykjavíkur Apóteka en fyrirtækið rekur apótek á Seljavegi 2 og í Skeifunni 11b í Reykjavík.

Nýr forstjóri mótað stefnu til lengri tíma

Finnur Árnason, þáverandi forstjóri Haga, sagði Reykjavíkur Apótek mjög sterkt vörumerki í viðtali við Fréttablaðið í mars 2020. „Við horfum til þess að byggja á grunni þessa fyrirtækis og opna nýjar verslanir. Það eru ákveðnar staðsetningar til skoðunar. Um leið og kaupin verða samþykkt liggur fyrir hvar fyrsta apótekið verður opnað. Það er ekki horft til þess að reka apótek á hverju horni heldur að byggja upp fyrirtækið af skynsemi og yfirvegun,“ sagði Finnur Árnason við Fréttablaðið , en félagið opnaði apótekið í Skeifunni í febrúar síðastliðnum.

Hann lét af störfum hjá Högum í sumar eftir meira en tveggja áratuga starf hjá fyrirtækin og nafni hans, Finnur Oddsson, tók við sem forstjóri. Í uppgjörinu kemur fram að búið sé að móta áherslur í rekstri og stefnu félagsins til lengri tíma.

Sjá einnig: „FinnTech“ framundan hjá Högum?

Áður ætluðu Hagar að kaupa Lyfju á 6,7 milljarða króna en Samkeppniseftirlitið ógilti samrunann sumarið 2017, ekki síst vegna þess hve það myndi styrkja stöðu sameinaðs félags á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.

Fjárfestar sýnt Útilíf áhuga

Fjárfestar virðast hafa verið áhugasamir um Útilíf um nokkra hríð. Í kynningu Haga frá því í mars 2019, kom fram að félagið hefði rætt við aðila sem hefðu áhuga á að kaupa reksturinn. Þá kom fram að rekstur Útilífs gengi vel og tilboð yrðu tekið til skoðunnar.

Útilíf rekur í dag tvær verslanir, annars vegar í Smáralind og hins vegar í Kringlunni. Fyrirtækið var stofnað árið 1974 þegar það opnaði í Glæsibæ, en þeirri verslun var lokað árið 2016.