Hagnaður Haga lækkaði um 3% á síðasta rekstrarári sem nær frá mars 2018 til febrúar 2019 og nam 2,3 milljörðum króna. Vörusala rekstrarársins nam 84,2 milljörðum króna, samanborið við 83,9 milljarða króna. Félagið tók yfir rekstur Olís 30. nóvember sem skýrir megið af aukinni veltu. Án áhrifa af Olís er söluaukning félagsins 4,1%.

Kostnaður félagsins vegna samrunans við Olís hefur numið 327 milljónum króna undanfarin tvö rekstrarár.

Framlegð félagsins var 20 milljarðar króna, samanborið við 18,3 milljarða árið áður eða 23,8% framlegðarhlutfall samanborið við 24,8% á fyrra ári. Hagar segja þetta sýna að kostnaðarverðshækkunum hafi ekki verið velt út í verðlag.

Í matvöruverslanahluta félagsins voru seld stykki um 0,9% fleiri en áður og viðskiptavinum fjölgaði um 2,0% milli ára.

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1.091 milljónir milli ára en hækkunin nemur um 13,5%. Hækkunina má að mestu leyti rekja til áhrifa Olís og kjarasamningshækkana á fyrri hluta árs 2018. Launahlutfallið er nú 10,9% en var 11,0% á fyrra ári. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 293 milljónir milli ára og er kostnaðarhlutfallið nú 7,9%, samanborið við 8,6% á fyrra ári. Á rekstrarárinu voru gjaldfærðar 50 milljónir vegna tapaðra viðskiptakrafna í heildsöluhluta félagsins. Sérstök 115 milljóna gjaldfærsla vegna birgða í Hagkaup var færð á fjórða ársfjórðungi.