Hagar, móðurfélag Bónuss, Hagkaups og Olís, högnuðust um 4 milljarða króna á síðasta rekstrarári sem lauk í febrúar samanborið við 2,5 milljarða ári áður. Afkoma félagsins jókst því um 59% á milli ára. Stjórn Haga leggur til að greiddar verði 2.265 milljónir króna í arð eða 2,0 krónur á hlut í ár sem samsvarar 56,8% af heildarhagnaði síðasta rekstrarárs.

Vörusala Haga jókst um 13,5% á milli ára og nam 136 milljörðum króna. Framlegð félagsins jókst um 7,3% og nam 28,4 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 10,5 milljörðum sem er 19,5% aukning frá fyrra ári. EBITDA-hagnaður félagsins var lítillega yfir efri mörkum afkomuspár stjórnenda sem uppfærð var í nóvember síðastliðnum.

Eignir Haga námu 65,2 milljörðum í lok febrúar. Eigið fé var 26,7 milljarða og eiginfjárhlutfall samstæðunnar var því 41%.

724 milljóna hagnaður á fjórða ársfjórðungi

Vörusala Haga á fjórða ársfjórðungi nam 35,3 milljörðum króna sem er 15% aukning frá sama tímabili ári áður. Framlegð á síðasta fjórðungi nam 7.292 milljónum sem er 20,7% aukning á milli ára. Hagnaður Haga á tímabilinu desember 2021 til febrúar 2022 nam 724 milljónum samanborið við 846 milljónir ári áður. Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir í afkomutilkynningu að afkoman á síðasta fjórðungi hafi verið nokkuð umfram áætlanir stjórnenda.

„Niðurstaða fjórðungsins er ánægjulegur lokahnykkur á gott rekstrarár Haga,“ segir Finnur. „Við erum ánægð með rekstur félagsins á fjórðungnum og á árinu í heild, en afkoma allra stærstu rekstrareiningar Haga, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, batnaði á milli ára.“

64 milljarða vörusala hjá Bónus

Í tilkynningu Haga segir að vörusala í Bónus hafi aldrei verið meiri og verið umfram 64 milljarða á síðasta rekstrarári. Einnig hafi Hagkaup skilað sinni bestu rekstrarniðurstöðu í sögu félagsins.

Finnur segir að tekjur af dagvörusölu í Bónus og Hagkaup hafi aukist um 6% á síðasta ársfjórðungi. Hann rekur aukna sölu m.a. til mikillar jólaverslunar og lengri opnunartíma hjá Bónus. Einnig megi rekja hluta tekjuaukningarinnar til hækkunar á vöruverði verð á aðföngum frá framleiðendum og birgjum hélt áfram að aukast á tímabilinu.

„Gera má ráð fyrir að stríðsátök í Úkraínu komi til með að auka enn frekar á þau vandamál sem valdið hafa verðhækkun á matvöru að undanförnu.“

Munaði mestu um breytingar hjá Olís

Finnur segir að þegar horft sé yfir afkomu rekstrareininga samstæðunnar muni mestu um nauðsynlegar breytingar í rekstri Olís. Tekjur og framlegð Olís hafi aukist mikið á meðan rekstrarkostnaður hafi staðið í stað. Hann segir að árangur á kostnaðarhlið olíufyrirtækisins sé tilkominn vegna fækkunar stöðugilda og lægri launakostnaðar í kjölfar markvissrar aðlögunar á þjónustuframboði og rekstri þjónustustöðva, hagræðingar í útibúaneti og lokunar á óarðbærum einingum.

Framlegð vörusölu hjá Olís hafi aukist á síðasta fjórðungi í takti við aukið magn, en lækki þó hlutfallslega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði olíu og mikillar söluaukningar til stórnotenda.

Sjá einnig: Rekstrarland heyrir sögunni til í vor

„Í hagræðingarvinnu Olís hefur verið lagður grunnur að frekari umbreytingu smásölusviðs, en hún lítur dagsins ljós á næstunni, með uppfærslu á vörumerki, nýrri ásýnd þjónustustöðva og breikkun vöruframboðs. Samhliða þessum breytingum hefur á síðustu mánuðum verið unnið að því að einfalda sölu- og aðfangaskipulag gagnvart stórnotendum sem gert er ráð fyrir að skili sér í frekara rekstrarhagræði og aðlagaðri en um leið betri þjónustu við viðskiptavini á landsbyggðinni,“ segir Finnur.

Hagar kynntu í byrjun árs nýju rekstrareininguna Stórkaup sem mun taka við sölu á hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörum frá Olís í næsta mánuði. Finnur segir að Stórkaup muni sækja fram á grunni sterkra innkaupa‐ og vöruhúsainnviða Haga og breiðara vöruframboði fyrir stórnotendur.