Svokölluð Costco-áhrif - viðbrögð neytenda, fyrirtækja og fjárfesta við komu Costco til Íslands - hafa eflaust komið fram í væntingum fjárfesta. Þessar væntingar endurspeglast í hlutabréfaverði kauphallarfélaga sem eru að einhverju leyti í samkeppni við Costco – smásölufélagið Hagar og olíufélögin N1 og Skeljungur.

Í gær var nákvæmlega einn mánuður liðinn frá því að Costco opnaði vöruhús í Kauptúni í Garðabæ. Frá ársbyrjun og til 23. júní hefur gengi bréfa í Högum lækkað um 13,9%, N1 um 6,4% og Skeljungur um 12,6%. Á sama tímabili hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 4,2% og aðalvísitala hlutabréfa um 10,9%.

Frá opnun Costco þann 23. maí hefur gengi hlutabréfa í Högum lækkað um 15,2%.

Hagar eru stærsta smásölufyrirtæki í landinu og reka meðal annars verslanir Bónuss og Hagkaups.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .