Úrvalsvísitala Kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 1,09% í dag og stendur því í 1.866,31 stigum og hefur hækkað um 9,10% frá áramótum. Heildarvelta á mörkuðum nam tæplega 6,6 milljörðum króna, þar af var velta á hlutabréfamarkaði 2,2 milljarðar og velta á skuldabréfarmarkaði 4,4 milljarðar króna.

Gengi hlutabréfa Haga hækkaði mest í dag eða um 4,35% í 222,9 milljón króna viðskiptum, en í dag opnaði opnaði verslunin Costco sem að verður einn helsti samkeppnisaðili Haga. Það sama á við um olíufélögin tvö sem skráð eru á markaði, en N1 hækkaði um 4,11% í 250,6 milljón króna viðskiptum og Skeljungur í 3,56% í 162,7 milljón króna viðskiptum. Costco selur bensín á 170 krónur á líterinn, og er því í beinni samkeppni við olíufélögin.

Vísitölur GAMMA

Markaðsvísitala GAMMA hækkaði um 0,3% í dag í 6,2 milljarða viðskiptum. Hlutabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,9% í dag í 2,2 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði um 0,1% í dag í 1,5 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,2% í 0,5 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,1% í 1 milljarða viðskiptum.  Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa lækkaði um 0,1% í dag í 2,7 milljarða viðskiptum.