Lítið lagðist hér fyrir góðan dreng, er þrælar skyldu að bana verða, og sé ég svo hverjum verða, er eigi vill blóta.“ Svo hefur Landnáma eftir Ingólfi er hann kom að líki Hjörleifs, fóstbróður síns. Hann hafði verið veginn af eigin þrælum. Einungis þetta er haft eftir Ingólfi í beinni ræðu í heimildum. Það hlýtur að hafa verið rík ástæða fyrir því af hverju Ingólfur var látinn taka til máls svo að það væri tryggt að skilaboðin kæmust áfram til lesenda.

Raunar er það svo að Landnáma kynnir þá fóstbræður sem boðbera mismunandi gilda. Hjörleifur undirbjó Íslandsferð sína með því að fara „í hernað í vesturvíking“ og kom aftur með 10 þræla. Ingólfur aftur á móti var heima í Noregi í rólegheitum og „varði fé þeirra til Íslandsferðar“. „Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.“ Þannig lögðu tvö skip út til Íslands til að stofna nýtt landnám. Öðru var stjórnað af trúlausum víkingi með þræla og herfang innanborðs en hinu af trúföstum bónda með norskt „félagsfé“ í farmi.

Þeim fóstbræðrum er því stillt upp eins og andstæðum. Dauði Hjörleifs verður táknræn staðfesting á því að lög skyldu gilda á Íslandi og eignarréttur virtur – en ekki ránskapur. Hins vegar – bendir ekkert til þess að Ingólfur hafi verið á móti þrælahaldi í sjálfu sér. Hann tók sér búsetu í Reykjavík og „nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli Öxarár og öll nes út“. Á þessu landnámssvæði voru um 420 býli í byggð samkvæmt Jarðatali Jóns Johnsens árið 1847. Samkvæmt því voru um 4.100 jarðir í byggð á Íslandi árið 1847 en það felur í sér að Ingólfur sló eign sinni á 10% alls ræktanlegs lands. Til þess að nýta þetta land þurfti vinnuafl og það virðist hafa verið sótt til Dyflinnar. Í upphafi Íslandsbyggðar virðist þrælahald hafa verið grundvöllurinn að búrekstri í landinu eins og alls staðar sést í heimildum: Ánauðugt fólk rær til fiskjar og fylgir hjörðum af búfé um landið. Þrælahald á Íslandi var þó aðeins einn angi af umfangsmikilli þrælaverslun á víkingaöld.

Hjörleifur verslar í Dyflinni

Það var árið 873 sem Hjörleifur fór til Írlands til þess að ná í þræla. Hann hefur án efa keypt þá í Dyflinni – fremur en hann hafi handsamað þá sjálfur. Á þessum tíma var Dyflinn stærsti þrælamarkaður Evrópu og þar voru ekki aðeins seldir Írar heldur einnig Skotar og Engilsaxar og fólk sem hafði verið handsamað í Frakklandi eða á Spáni eða hvar annars staðar sem víkingaskip stungu niður stafni. Dyflinnarmenn höfðu einnig náð miklum árangri í því að markaðssetja fólk beint til hins íslamska heims – og fá lúxusvörur í staðinn. Landnáma segir frá því að Hjörleifur hafi rænt grafhýsi í Írlandsferð sinni og náð þar góðu sverði. Það er dálítið skemmtilegt að írskir annálar staðfesta þetta og geta þess að flokkur manna hafi farið frá Dyflinni til þess að ræna forn grafhýsi þetta sama ár 873.

Hjörleifur keypti 10 þræla í Dyflinni. Það var töluverð fjárfesting. Á þjóðveldistímanum var yfirleitt reiknað með því að einn þræll kostaði 12 aura silfurs (324 grömm) eða rúmlega hálft kýrverð. Hjörleifur hefur því lagt út rúmlega 3 kíló af silfri fyrir þrælana eða 7 kýrverð – ef miðað er við þetta verðlag. Landnáma segir að 20 karlmenn hafi verið á skipi Hjörleifs á leið til Íslands – jafn margir frjálsir menn og þrælar. Þetta var of hátt hlutfall. Þegar til Íslands var komið sendi Hjörleifur þrælana út til þess að plægja. Þeir drápu uxann og sögðu að skógarbjörn hefði verið að verki. Þegar síðan Hjörleifur og menn hans dreifðu sér um landið til þess að leita að birninum þá sátu þrælarnir fyrir þeim og drápu. Þetta er þó alls ekki eina dæmið um þrælauppreisnir á Íslandi á landnámstímanum. Tilgátur eru uppi um að um 20% þjóðarinnar hafi verið ánauðug á seinni hluta landnámsaldar. Til samanburðar voru svartir þrælar um 25-45% af íbúum Suðurríkjanna um 1860, eftir því hvaða ríki var um að ræða. Mörgum af þessum þrælum virðist síðan hafa verið launað fyrir góða þjónustu með því að fá frelsi og jarðnæði að lokum.

Ólafur hvíti

Víkingar birtust fyrst á sjónarsviðinu með ránum á eyjunum kringum Bretland við lok áttundu aldar. Þeir reyndu meðvitað að skapa ótta – meðal annars til þess að heimta gjald fyrir að herja ekki eða jafnvel lausnargjald fyrir gísla. Hvað sem því leið var kaupskapur næstur á dagskrá þegar rykið hafði sest. Víkingaferðirnar stækkuðu heiminn. Nýjar viðskiptaleiðir og nýir kaupstaðir höfðu orðið til um alla Evrópu og alþjóðavæðing tekið við. Reglan var yfirleitt sú að aukin efnaleg velmegun fylgdi í kjölfar víkinga á þeim svæðum sem þeir höfðu tekið undir sig, þegar nýjar verslunarborgir spruttu upp og starfsemi í þeim vaxið.

Þetta átti líka við um Írland. Dyflinni var upphaflega stofnuð sem ræningjahreiður árið 841 en varð fyrsta borg landsins. Hún var tekin yfir árið 853 af manni sem Landnáma kallar Ólaf hvíta og undir hans stjórn varð hún að alþjóðlegri verslunarmiðstöð – með áherslu á þrælasölu. Ólafur þessi var eiginmaður Auðar djúpúðgu er nam Dali og hann er því ættfaðir allra Íslendinga en það er önnur saga. Hinn kaldi efnahagslegi veruleiki var sá að utanríkisviðskipti á þessum tíma snerust um góðmála og munaðarvörur ekki nauðsynjavörur. Norrænir menn sóttust eftir silfri, vínum, góðum vopnum, skartgripum, silki, fallegum vefnaði og tískuklæðnaði. Írland hafði eiginlega ekkert af þessu og varla England heldur. Slíkur varningur fékkst úr suðri frá Frakklandi, Spáni eða enn sunnar frá Miðjarðarhafi og löndum múslima. Þessar suðurþjóðir kærðu sig lítið um norrænar vörur nema ef til vill þær sem komu frá Norður-Noregi ofan við heimskautsbaug. Hins vegar þurftu þessar suðurþjóðir ávallt á ánauðugu vinnuafli að halda. Þannig gátu norrænir menn keypt þessa eftirsóttu hluti með því að taka fólk af Írlandi og selja það suður.

Í þessu fólst þó ekki að norrænir menn hefðu fundið upp þrælahald þar um slóðir eða einungis fangað fólk til að selja. Þrælahald átti langa sögu á Írlandi. Landið var þá undir stjórn 150 smákónga sem voru í stöðugum ófriði. Mikil eftirspurn og hátt verð á þrælamarkaðinum varð til þess að þrælasmölun varð hluti af írsku smákónga stríðunum. Þegar fram liðu stundir var alveg jafn líklegt að seldir þrælar í Dyflinni hefðu verið fangaðir af eigin samlöndum og víkingum. Þrælamarkaðurinn í Dyflinni var því miðstöð fólksflutninga sem gengu í margar ólíkar áttir. Jafnvel er talið að Írar hafi einnig selt þar hertekna norræna menn en síðar urðu örlög nokkurra Íslendinga þau að lenda í þrældómi á Írlandi.

Dyflinni og landnám Íslands

Árið sem Hjörleifur kom í Dyflinni var síðasta árið sem Ólafs hvíta naut við. Hann var drepinn í Skotlandi landnámsárið 874. Í kjölfarið hófu bæði Írar og Skotar gagnsókn gegn norrænum yfirráðum og landnámi. Írskir sagnfræðingar hafa gjarnan kallað tímann frá 876-916 hina 40 ára hvíld (e. Forty years rest). Þá fékk Írland að mestu að vera í friði fyrir víkingaárásum og norrænir menn í landinu voru uppteknir við að berjast innbyrðis eða herja á önnur lönd. Írsku konungarnir tóku nú að vinna saman og eyða í misstórum skrefum bækistöðvum norrænna manna í landinu. Árið 902 sameinuðust írsku konungarnir loks í árás á Dyflinni, hröktu norræna menn í sjóinn og tóku borgina yfir. Tveimur árum síðar vann Konstantín II. Skotakonungur gríðarlegan sigur gegn norrænum mönnum og stöðvaði landnám þeirra í Skotlandi.

Hvað sem leið hetjukvæðum og frægðarsögum af víkingaferðum við langelda var stríðsstétt Noregs landaðall. Grundvöllur að lífi hennar og þjóðfélagsstöðu var yfirráð yfir landi en sókn í land var helsta leiðarstefið í vesturferðum víkinga. Fjörutíu ára kyrrðin á Írlandi fer saman við landnám Íslands. Á þessum tíma var mikið af norrænu landnámsfólki hrakið frá Bretlandseyjum og leituðu til Íslands. Þau höfðu flest samlagast gelískri menningu og mörg tekið kristni. Einnig var algengt að norskir karlmenn á Bretlandseyjum hefðu tekið sér keltneskar konur – hvort sem þær voru eiginkonur eða hjákonur. Landnámsfólk Íslands var því blönduð þjóð – bæði vegna keltneskra hjónabanda og síðar gríðarlegra fólksflutninga af þrælamarkaðinum í Dyflinni til landsins.

Frjáls verslun grundvöllur að sjálfstæði

Norrænir menn náðu þó að snúa taflinu við. Árið 916 tóku víkingaherir Dyflinni á nýjan leik og nýtt blómaskeið hófst í verslun á Írlandshafi. Raunar voru norrænir farmenn ráðandi í siglingum á Norður-Atlantshafi fram yfir 1200. Utanríkisviðskipti Íslands hafa án efa beinst töluvert að Írlandi í upphafi, einkum á meðan landsmenn voru stórtækir í því að flytja inn þræla. Þunginn færðist síðan til Noregs eftir 1100. Það gerðist við hin formlegu lok víkingaaldar sem miðast við hina misheppnuðu innrás Norðmanna í England og ósigur Haraldar konungs harðráða við Stafnfurðubryggju (Stamford Bridge) 1066. Í kjölfarið hófu Norðmenn að leggja meiri áherslu á viðskipti við Bretlandseyjar í stað hernaðar. Árið 1070 var fyrsti formlegi verslunarstaðurinn á vesturströnd Noregs stofnaður í Björgvin árið 1070 með fókus á verslun við Bretland. Björgvin varð höfuðstaður hins norska konungdæmis á tólftu öld.

Sama ár og Haraldur harðráði beið ósigur við Stafnfurðubryggju gerðu Normannar innrás í England undir forystu Vilhjálms bastarðs (síðar hins sigursæla). Þeir unnu sigur á Engilsöxum við Hastings og brutu landið undir sig. Rúmlega öld síðar, árið 1170, gerðu Normannar innrás í Írland og tóku allar norrænar borgir á eyjunni og drápu helstu forystumenn. Eftir þetta rofnuðu verslunartengsl Íslands og Dyflinnar. Missir Dyflinnar var mikill fyrir norskan og íslenskan kaupskap. Björgvin tók að hnigna þegar fram í sótti og þýskar Hansaborgir tóku yfir utanríkisverslun Norðmanna frá því um 1300. Hvað Íslendinga varðaði fól missir Írlands í sér takmarkaðri viðskiptamöguleika og færri skip til landsins. Landið hélt að vísu verslunarsambandi við Orkneyjar og Skotland eitthvað áfram. Hins vegar komst öll utanríkisverslun landsins í hendur Björgvinjarmanna þegar fram í sótti og siglingum fækkaði til landsins. Óttinn um að gleymast í norðurhöfum og að skip hættu að koma virðist hafa verið einn af þeim þáttum sem grófu undan sjálfstæði landsins.

Þegar Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála 1262 var sérstaklega kveðið á um að konungur skyldi tryggja að sex skip sigldu hingað á hverju ári. Þessi samningur þróaðist síðan yfir í verslunareinokun þar sem Norðmenn höfðu einkarétt á siglingum til landsins með það meginmarkmið að stöðva þýska Hansakaupmenn. Þrátt fyrir þetta efndi konungur ekki það loforð að senda hingað sex skip. Af annálum má sjá að árin 1357, 1362, 1367 og 1392 kom aðeins eitt skip til landsins og árin 1355, 1374 og 1390 kom ekkert. Þetta breyttist síðan á einu ári, 1412, þegar ensk skip hófu að sigla hingað til landsins og landið komst aftur í verslunarsamband við Bretlandseyjar. Tæpum 200 árum síðar, 1602, kom Danakonungur á verslunareinokun af sömu ástæðu og Noregskonungur fyrrum, til að vernda norræna kaupmenn fyrir samkeppni frá Englandi, Þýskalandi og Hollandi.

Endalok þrælahalds á Íslandi

Það var löngum sagt að draumur hvers vinnumanns á Íslandi hafi verið að eignast eigin jörð og stofna fjölskyldu. Eflaust hefur verið erfitt að halda í frjálst vinnuafl þegar nægilegt landrými var alls staðar fyrir hendi. Á fyrstu öldum landnáms, þegar fólk var fátt í landinu, hefur launastig verið hátt en landverð lágt. Í grein sem Ragnar Árnason hagfræðingur og kona hans Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur rituðu sem ber titilinn „Þrælahald á þjóðveldisöld“, og birtist í tímaritinu Sögu árið 1983, er sú tilgáta lögð fram að þrælahald hafi síðan hætt af hagkvæmnisástæðum þegar fólki tók að fjölga í landinu samhliða því að launastig lækkar eftir því sem frjálsbornu vinnufólki fjölgar og land fór að vera takmarkandi þáttur. Í stað þess að nýta frjósamt land á láglendi undir haga er það tekið undir akur- og túnrækt og beitin færist yfir á úthaga og afrétti. Þessar breytingar eiga sér stað á löngum tíma og mjög líklega hefur þrælahald lagst af á tíundu öld þó að það hafi ekki verið bannað með lögum á þjóðveldistímanum.

Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .