Hagfræðingar og álitsgjafar vara Bandaríkjaþing við að framlengja ekki sérstakar atvinnuleysisbætur vegna heimsfaraldursins, sem hafi hjálpað milljónum atvinnulausra að komast af, og stutt í leiðinni við eftirspurn, sem hafi fallið mikið. Financial Times fjallar um málið .

Haft er eftir hagfræðingi hjá hugveitu sem rannsakað hefur málið að verði bótunum – sem nema 600 Bandaríkjadölum eða um 85 þúsund krónum á viku – hætt, muni það gera vonda stöðu enn verri. Í ofanálag munu fleiri þættir 3 billjón dala björgunarpakka ríkisins renna sitt skeið á næstunni.

Hagfræðingur við George Washington-háskóla segir ríflegan björgunarpakkann hafa viðhaldið tekjum heimilanna og þar með einkaneyslu fram að þessu, en sú staða sé nú í hættu. „Tekjur heimilanna munu falla í júlí þegar [beinu 1.200 dala millifærslurnar] klárast. Þær munu hinsvegar falla mun mun meira í ágúst, nema eitthvað verði að gert.“

Enn er þó ekki útséð um hvort aðgerðunum verði leyft að renna út, eða þær endurnýjaðar, en viðræður standa nú yfir milli þingflokkanna. Demókratar hafa talað fyrir endurnýjun, en þingflokkur Repúblíkana óttast að áframhaldandi greiðslur muni draga úr hvata fólks til vinnu.

Hinir síðarnefndu hafa lagt til fjárveitingarheimild sem ólíklegt þykir að dygði fyrir óbreyttum stuðningi, en sumir þeirra hafa ennfremur viðrað hugmyndir um að lækka tekjuþröskuld þeirra sem eigi rétt á bótunum, eða lækka upphæðina sjálfa.