Hagnaður færeyska bankans Bank Nordic, sem skráður er í íslensku kauphöllina, dróst eilítið saman milli ára og var hann 191 milljón danskra króna á síðasta ári, eða sem nemur 2.493 milljónum íslenskra króna.

Er það lækkun milli ára um 3 milljónir danskra króna eða 1% að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum.

Vaxtagjöld lækkuðu um 55 milljónir danskra króna, og þáttatekjur voru 34 milljónum lægri. Hagnaður af tryggingum var 1 milljón lægri, aðallega vegna hárra bóta í kjölfar óveðurs sem fór yfir eyjarnar í desember á síðasta ári.

Rekstrarkostnaður lækkaði um 40 milljónir danskra króna á árinu og nam hann 459 milljónum í heildina. Á árinu seldi bankinn tryggingafélagið Vörð til Arion banka

Hagnaður bankans fyrir skatt nam 277 milljónum danskra króna á síðasta ári, en árið 2015 tapaði bankinn 332 milljónum króna fyrir skatta, ef Vörður er tekinn með.

Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam hagnaðurinn 38 milljónum danskra króna sem er lækkun úr 53 milljónum á næsta ársfjórðungi á undan.