Bookingdotcom ehf, dótturfélag hollenska bókunnar risans Booking.com skilaði 81 milljón króna hagnaði á síðasta ári og jókst hagnaður félagsins um 9 milljónir króna á milli ára samkvæmt ársreikningi þess.

Samkvæmt skýrslu stjórnar veitir fyrirtækið stoðþjónustu við móðurfélagið Booking.com. Felst stoðþjónustan meðal annars í markaðsstarfi fyrir Booking, veita hótelum og samstarfsaðilum upplýsingar um Booking og kynna fyrir hótelum hvernig þau geti bætt árangur sinn á Booking.com byggt á leiðbeiningum upplýsingum frá móðurfélaginu.

Tekjur félagsins námu 234 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 12 milljónir milli ára en ljóst má vera að tekjur fyrirtækisins hér á landi eru mun hærri enda eru flest íslensk hótel inn á vefsíðu Booking en þóknanir til fyrirtækisins eru á bilinu 15-20% af hverri sölu og jafnvel hærri.

Í rannsókn á vegum Ferðamálastofu frá því mars á þessu ári kom fram að þóknanatekjur vegna gististarfsemi hér á landi væru á bilinu 4,1 til 7,4 milljarðar króna á ári en venjuleg sviðsmynd rannsóknarinnar gerði ráð fyrir um 5,3 milljörðum. Þess má geta að markaðshlutdeild Booking í Evrópu er um 65% og er einnig sú langumsvifamesta hér á landi.

Heilsársstöðugildi hjá félaginu voru 11 á síðasta ári og voru óbreytt milli ára en launakostnaður nam 99 milljónum króna og jókst um 3 milljónir milli ára. Rekstrarhagnaður (EBIT) 102 milljónum á árinu og jókst um 13 milljónir á milli ára.

Eignir félagsins námu 180 milljónum króna í árslok og lækkuðu um 47 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall var 66% í árslok og lækkaði um 17 prósentustig á milli ára en félagið greiddi 150 milljónir í arð vegna rekstrarársins 2017.