Fjárfestingarfélagið Brimgarðar ehf. skilaði 5,3 milljarða króna hagnaði á síðasta ári, samanborið við 2,5 milljarða hagnað árið 2019. Helst munar um matsbreytingu fjárfestingareigna, sem eru bókfærðar á 4,9 milljarða, en árið áður nam þessi liður 3,0 milljörðum króna.

Með matsbreytingunni fer bókfært virði fjárfestingareigna, þ.e. fasteignir til útleigu, úr 4,9 milljörðum í 10,5 milljarða milli ára. Í ársreikningi félagsins segir að hækkun gangvirðis fjárfestingareigna skýrist annars vegar af fjölgun eigna á meðal fjárfestingareigna og hins vegar af því að í gangvirðismatinu 2019 var matið niðurfært að hluta vegna óvissu, þar með talið vegna áhrifa Covid-19.

Rekstrartekjur Brimgarða lækkuðu um 20% milli ára og voru 589 milljónir króna í fyrra. Rekstrargjöld meira en tvöfölduðust og námu 270 milljónum. Því fór rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu úr 613 milljónum árið 2019 niður í 319 milljónir á síðasta ári.

„Covid-19 hafði talsverð áhrif á rekstur félagsins á árinu. Almennt má gera ráð fyrir að leigutekjur dragist saman og markaðsverð hlutabréfa verði undir nokkrum þrýstingi á meðan óvissa er um langtíma efnahagsleg áhrif faraldursins,“ segir í skýrslu stjórnar sem undirrituð var 30. mars síðastliðinn. Stjórnendur telji þó að faraldurinn muni ekki hafa veruleg áhrif á reksturinn til framtíðar.

Eignir félagsins voru 17,6 milljarðar í árslok 2020 og eigið fé 10 milljarðar. Á árinu seldi félagið eigin bréf en greiðsla til félagsins vegna þessara viðskipta nam 800 milljónum króna.

Á 5,9 milljarða hlut í skráðum félögum

Bókfært virði eignarhluta í skráðum bréfum sem færð eru á markaðsverði er 5,9 milljarðar króna. Þar vegur eignarhluturinn í Eik þyngst en bókfært virði hans var rétt undir 4 milljarðar króna í lok síðasta ár. Brimgarðar, stærsti hluthafi Eikar, hafa frá áramótum bætt við hlut sinn í féelaginu og eiga í dag um 511 milljónir hluti, eða um 14,9%, sem er nú 5,4 milljarðar króna að markaðsvirði. Þá hefur fjárfestingarfélagið einnig gert framvirka kaupsamninga fyrir 9,3% hlut til viðbótar í Eik .

Auk Eikar átti Brimgarðar hlut í fasteignafélögunum Reitum og Regin ásamt hlutabréfum í Arion banka, Sjóvá og VÍS. Brimgarðar átti líka óskráð bréf hjá Dohop og Solid Clouds.

Langisjór ehf., móðurfélag Brimgarða, keypti Ölmu íbúðafélag fyrir 11 milljarða króna fyrr í ár. Á stjórnarfundi Ölmu þann 20. apríl var samþykkt tillaga um að félagið íbúðafélagið myndi kaupa allt hlutafé Brimgarða af Langasjó. Samhliða því var ákveðið að hækka hlutafé Ölmu um tvo milljarða króna að raunvirði.

Langisjór er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Meðal fyrirtækja í samstæðu Langasjávar eru Mata hf., Matfugl ehf. og Síld og fiskur ehf.