Hagnaður Centerhotels nam 314 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 17 milljónir frá fyrra ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Tekjur hótelkeðjunnar sem rekur sjö hótel í miðbæ Reykjavíkur námu 4.774 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 25% milli ára.

EBITDA nam 797 milljónum króna á árinu og jókst um 15% milli ára auk þess sem rekstrarhagnaður (EBIT) nam 651 milljón og jókst um 111 milljónir milli ára. Launakostnaður nam tæplega 1,7 milljörðum og hækkaði um 18,8% milli ára en þar fjölgaði heilsársstöðugildum um 30 og voru þau 224 á síðasta ári. Launahlutfall hótelkeðjunnar sem er launakostnaður í hlutfalli af tekjum lækkaði um 1,7 prósentustig milli ára og var 34,6% á síðasta ári.

Eignir Centerhotels námu rúmlega 4.157 milljónum í árslok og hækkuðu um 265 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall var 17,6% í lok ársins og hækkaði um 6,1 prósentustig milli ára en arðsemi eiginfjár nam 53,4% á síðasta ári. Centerhotels eru í eigu S&K eignarhaldsfélags en það félag er í eigu hjónanna Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur en Kristófer er jafnframt framkvæmdastjóri hótelkeðjunnar. Félagið greiddi 28 milljónir í arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2017 en ákvörðun um arðgreiðslu vegna 2018 kemur ekki fram í ársreikningi félagsins.