Fjórðungsuppgjör Coca-Cola stóðst ekki væntingar markaðsins. Bréfin í drykkjarframleiðandanum hafa lækkað um rúm 3% það sem af er degi.

Sala styrktist í Bandaríkjunum, en nýmarkaðir á borð við Kína og Argentínu voru lakari en gert var ráð fyrir. Verðbólga hefur aukist mikið á ýmsum nýmörkuðum. Eftirspurn eftir ýmsum vörum hefur dregist saman í kjölfarið og virðist það hafa áhrif á Coca-Cola.

Félagið spáir áframhaldandi 3% vexti, en spár þeirra voru áður um 5%. Á stærsta markaði félagsins, Norður Ameríku, jukust tekjurnar um 2%. Félagið ætlar sér í frekari sókn hvað varðar goslausa drykki. Neytendur virðast sýna heilsunni meiri áhuga og velja í dag djúsa fram yfir gosdrykki.

Hagnaður félagsins var 60 sent á hlut. Rekstrartekjur félagsins voru 11,54 milljarðar bandaríkjadollara.