Hagnaður þýska bankans Deutsche Bank dróst saman um 79% á fyrsta ársfjórðungi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Bankinn hefur á undanförnum misserum átt erfitt uppdráttar en fyrr í mánuðinum var skipt um forstjóra.

Bankinn tilkynnti í tilefni af uppgjörinu að hann myndi minka fjárfestingabankastarfsemi sína í Bandaríkjunum. Í tilkynningu frá bankanum segir jafnframt að hann stefndi að því að draga úr starfsemi í Bandaríkjunum og Asíu og fækka starfsfólki á fjárfestingabankasviði sínu.

Hagnaður bankans nam 120 milljónum evra á fjórðungnum eða sem nemur um 14,6 milljörðum íslenskra króna. Tekjur drógust jafnframt saman um 5% og námu 7 milljörðum evra. Síðan greint var frá uppgjörinu hafa hlutabréf bankans lækkað um tæp 2%.