Hagnaður Eyrir Invest árið 2017 nam 110 milljónum evra, eða sem samsvarar 13,6 milljörðum íslenskra króna að því er Morgunblaðið greinir frá upp úr ársreikningi félagsins. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá nam hagnaður félagsins árið 2016 ári 5,6 milljörðum króna, svo aukning hagnaðar milli ára nemur um 163%.

Aðaleignir félagsins eru 26% hlutur í Marel, þar sem félagið er jafnframt stærsti eigandinn, og 43% hlutur í Eyri Sprotum, sem fjárfesta í vaxtafyrirtækjum ýmis konar. Jafnframt á félagið um þriðjung í Efni Media sem selur vörur og þjónustu í gegnum netið og samfélagsmiðla.

Á árinu 2017 hækkaði verðmæti Marel um 30%, að teknu tilliti til arðgreiðslna, en árið 2016 hafði Marel lækkað um 4% í verðmæti.
Arðsemi eigin fjár Eyris var 34% á árinu 2017, og eiginfjárhlutfallið var 66% við lok ársins. Félagið seldi á árinu í Marel fyrir 66,9 milljónir evra, eða sem nemur 8,3 milljörðum króna.

Félagið setti 3,6 milljónir evra, eða 444 milljónir króna, til viðbótar í Eyri Sprota, auk þess að kaupa eigin bréf fyrir 748 þúsund krónur. Landsbankinn er stærsti eigandinn í Eyri, með 22%, Þórður Magnússon stjórnarformaður á 19% og Árni Oddur Þórðarson, sonur hans og forstjóri Marel, á 16%.