Hagnaður Haga jókst um fjórðung á öðrum ársfjórðungi 2020 samanborið við sama tímabil fyrra árs. Hagar högnuðust um 1,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi 2020, 4,3% af veltu, en 1,2 milljarða á fyrri hluta ársins, eða 2,1% af veltu.

Framlegðarhlutfall á öðrum ársfjórðungi, sem nær frá 1. mars til 31. ágúst, nam 23,5% og jókst um tvö prósentustig milli ára. Vörusala var nær óbreytt milli ára og nam 31 milljarði. Hagnaður á hlut var 1,12 krónur en 1,04 krónur á hlut á sama tímabili fyrra árs.

EBITDA Haga á fyrri hluta ársins nam 4,3 milljörðum og dróst saman um 200 milljónir milli ára. Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2020/21 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 8.100-8.600 milljónir króna.

Fram kemur að neikvæð áhrif af Covid-19 hafi verið mikil á fyrsta ársfjórðungi og voru því að mestu komin fram á öðrum fjórðungi. Heimsóknum viðskiptavina í matvöruverslanir hafi fækkað en að meðalkarfan hafi stækkað umtalsvert. Útilíf og Reykjavíkur Apótek hafa verið sett í söluferli.

Neikvætt sjóðstreymi

Í lok annars ársfjórðungs námu eignir Haga alls 62 milljörðum króna. Þar af voru 23 milljarðar rekstrarfjármunir og tíu milljarðar óefnislegar eignir. Skuldir námu 37 milljörðum, þar af fimmtán milljarðar skammtímaskuldir. Eigið fé nam um 25 milljörðum og eiginfjárhlutfall félagsins var 41%.

Sjóðstreymi félagsins var neikvætt um rúmlega 2,5 milljarða króna en neikvætt um tæplega milljarð á sama tímabili fyrra árs. Handbært fé í upphafi tímabils var tæplega 3,5 milljarðar en í lok fjórðungsins var það um 900 milljónir.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt um tæplega milljarð króna. Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 1,3 milljarða og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 2,2 milljarða.

Finnur Oddsson, forstjóri:

„Afkoma á öðrum ársfjórðungi var góð og umfram væntingar, sem endurspeglar styrk Haga samstæðunnar í ögrandi aðstæðum eins og þeim sem heimsfaraldur COVID-19 veldur. Við erum ánægð með þennan árangur og sérstaklega viðsnúninginn frá fyrstu mánuðum árs þegar faraldurinn setti stórt strik í reikninginn í öllum okkar rekstri.

Áhrifum COVID-19 er nokkuð misskipt eftir rekstrareiningum, en í samanburði við síðasta ár hefur verslana- og vöruhúsastarfsemi Haga gengið vel.  Við finnum hins vegar fyrir því að viðskiptavinir okkar hafa breytt kauphegðun sinni með því að fækka heimsóknum í matvöruverslanir. Á sama tíma hefur meðalkarfa í hverri heimsókn stækkað töluvert og niðurstaðan er góð tekjuaukning í rekstri Bónus, Hagkaups og sérvöruverslana sem og aukin hagkvæmni í rekstri vöruhúsa Haga, Aðfanga og Banana.

Eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung færðist rekstur Olís til betri vegar og gekk vel á öðrum fjórðungi, yfir sumarmánuðina. Þar nutum við góðs af ferðagleði landsmanna auk þess sem breytingar á olíuverði voru hagfelldari en á fyrsta fjórðungi. Rekstur er enn undir áætlunum og fyrirsjáanlegt er að neikvæðra áhrifa COVID-19 mun áfram gæta í meiri mæli hjá Olís en í verslunareiningum Haga. Til að takast á við þær aðstæður er mikilvægt að gæta sérstaklega að hagkvæmni í rekstri eins og við höfum gert undanfarna mánuði.