Hagnaður leigufélagsins Heimavalla nam 2.716 milljónum króna árið 2017 og jókst um 22,5% á milli ára en hagnaður ársins 2016 var rétt um 2.217 milljónir.

Leigutekjur Heimavalla á árinu 2017 námu 3.096 milljónum krónum samanborið við 1.495 milljónir árið áður sem er ríflega tvöföldun frá fyrra ári.

Þá var rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu 1.622 milljónir króna sem er aukning um 967 milljónir á milli ára.

Eigið fé félagsins jókst nokkuð á milli ára en það var 17.587 milljónir króna í árslok 2017 samanborið við 11.621 í árslok ársins 2016. Eiginfjárhlutfall félagsins var 31,4%.

Skuldir jukust einnig en vaxtaberandi skuldir námu 34.938 milljónum í lok árs 2017 en 27.483 milljónum árið 2016.

Félagið hefur stækkað nokkuð milli ára en það tók í 330 íbúðir í notkun á árinu og heildarfjöldi íbúða því um 2.000 í árslok en á næsta ári hyggst félagið auka við sig um 340 íbúðir.

Stefnt er að skráningu félagsins á aðallista Kauphallar Íslands um mánaðarmótin mars-apríl. „Ég er sáttur við rekstrarniðurstöðu félagsins á árinu 2017. Félagið hefur vaxið hratt og tekið yfir stór og krefjandi leigusöfn sem hefur gengið vel að samþætta annarri starfsemi félagsins. Reksturinn styrktist verulega á síðasta ári sem sést best á því að mánaðarleg velta hækkaði úr 230 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2017 í 290 milljónir króna á síðasta ársfjórðungi ársins. Þessi veltuaukning skilaði sér í bættum rekstri og afkomu. Við teljum okkur í góðri stöðu fyrir fyrirhugaða skráningu félagsins í Kauphöll,“ er haft eftir Guðbrandi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Heimavalla í tilkynningu.