Útgerðarfélagið Skinney-Þinganes skilaði 2,7 milljarða króna hagnaði í fyrra. Rekstrartekjur jukust um 21% á milli ára og námu rúmlega 13 milljörðum. Eigið fé í árslok var 14,5 milljarðar króna.

Félagið jók við hlut sinn í Löxum ehf. á árinu og fór með 23,59% eignarhlut í árslok samanborið við 10,4% í upphafi árs. Eins og kunnugt er komust ICE Fish Farm og Laxar að samkomulagi um kaup ICE Fish Farm á öllum bréfum í Löxum í desember á síðasta ári.

Í fréttatilkynningu frá ICE Fish Farm frá því í apríl kemur fram að stjórnir og hluthafar beggja félaga hafi gefið samþykki fyrir kaupunum og að gengið verði frá kaupunum fyrir lok annars ársfjórðungs 2022.

ICE Fish Farm greiðir fyrir Laxa með hlutafjáraukningu upp á 37 milljónir hluta. Eftir hlutafjáraukninguna verða útistandandi hlutir 91 milljón talsins. Eignarhlutur Skinney-Þinganess í sameinuðu félagi verður 9,67%.

Í ársreikningi Skinney-Þinganess var eignarhluturinn í Löxum eignarhaldsfélagi bókfærður á einn milljarð í upphafi árs en í árslok var hann bókfærður á 5,4 milljarða. Á árinu keypti félagið í Löxum fyrir 4,8 milljarða, en hluturinn í Löxum hvar jafnframt niðurfærður um 385 milljónir króna „með hliðsjón af væntu markaðsverði sameinaðs félags“, segir í ársreikningnum. Miðað við núverandi gengi Ice Fish Farm, sem skráð er á markað í Noregi, má ætla að virði hlutarins sé í kringum 3,9 milljarðar króna.

Aðalsteinn Ingólfsson er forstjóri Skinney-Þinganess.