Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir grænar lausnir hagnaðist um 12,4 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins. Um er að ræða fyrsta sinn sem félagið skilar hagnaði eftir skatta og fjármagnsgjöld frá skráningu á First North markaðinn árið 2017.

Hagnaður Klappa fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam 46 milljónum króna, samanborið við 17,3 milljónir á sama tíma árið áður, samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri. Tekjur Klappa, sem þróar hugbúnað til umhverfisstjórnunar á fyrri helmingi ársins jukust um 4,7% milli ára og námu 177,4 milljónum króna.

„Frá áramótum hefur notendum fjölgað um 13,4%. Þessi aukning er að hluta til vegna grunn áskrifta sem vænst er til að skili sér inn í auknum tekjur á komandi mánuðum,“ segir Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa, í tilkynningu félagsins.

Heildareignir félagsins voru 496 milljónir í lok júní, þar af voru fastafjármunir 245 milljónir og veltufjármunir 2501 milljón. Eigið fé nam 427 milljónum og er eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins 86.1%.

Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa:

Viðskiptavinir okkar hafa dregið úr losun  gróðurhúsalofttegunda um 16% að meðaltali (21% ef miðað er við veltu), um 90% af skipum sem koma til landsins skila inn umhverfisgögnum í gegnum stafrænt vistkerfi Klappa. Skógrækt í gegnum Kolvið hefur aukist um 300% frá árinu 2017. Flokkun og meðhöndlun á úrgangi hefur tekið stórstígum framförum þar sem sumir af okkar viðskiptavinum hafa bætt flokkunarhlutfall sitt frá um 50% í allt að 85%. Við erum stolt af þessum góða árangri.

Alþjóðlega fjármálakerfið (m.a. bankar, fjárfestingarsjóðir og almennir fjárfestar) er sú atvinnugrein sem mun hafa hvað mest áhrif á það hvort að við náum að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C. Til að fjármálakerfið geti skilað þeim árangri sem það ætlar sér, þá þarf það að hafa aðgang að traustum gögnum og mælanlegum upplýsingum um árangur af þeim skrefum sem atvinnugreinin tekur í átt að sjálfbærni. Klappir eru að vinna náið með fjármálafyrirtækjum á Íslandi að þróun á sérstakri hugbúnaðareiningu sem er samþætt sjálfum lausnarpallinum (e. Platform) en þessi eining kemur til með að hjálpa atvinnugreininni í að fá yfirsýn yfir sjálfbærni og sjálfbærni-áhættu verkefna.

Nú beinast augu okkar allra að IPCC skýrslunni og þeirri þröngu stöðu sem mannkynið stendur frammi fyrir. Því miður þá er staða okkar Íslendinga mjög þröng og tíminn sem við höfum til að standa við skuldbindingar okkar allt of stuttur. Þegar við skuldbundum okkur árið 2015 um að draga úr losun um 40% 2015 þá höfðum við 15 ár til ráðstöfunnar. Nýjar skuldbindingar Íslands eru að draga úr losun um 55% fyrir 2030 og að verða kolefnishlutlaus fyrir 2040. Á síðustu fimm árum hefur nær ekkert dregið úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi þannig að við höfum núna einungis 10 ár til að ná þeim árangri sem við höfum skuldbundið okkur til að ná.

Því miður er það þannig að eftir því sem tíminn líður án þá eykst áhættan í rekstri fyrirtækja verulega og kostnaðurinn sömuleiðis en reikna má með að hvert tonn CO2-íg komi til með að kosta að lágmarki 15.000 kr. árið 2030. Fyrir þá sem vilja kynna sér betur loftslagsmálin þá höfum við tekið saman helstu atriði loftslagsmála á Íslandi.

Það er orðið ljóst að Klappir eru með þá tækni og aðferðafræði sem þarf til - til að hægt sé að halda utan um og ná árangri í loftslagsmálum. Við erum líka með einstaka sögu frá Íslandi þar sem samfélag hefur sameinast um að nota Klappir til að halda utan um loftslagsmálin. Í raun erum við orðin mikilvægt innviðafyrirtæki á Íslandi varðandi tækni, framþróun og stuðning við loftslagsverkefni á Íslandi.

Við höfum mikil sóknarfæri á Norðurlöndum sem eru leiðandi á sviði sjálfbærni í heiminum í dag.  Til að ná því að verða leiðandi í heiminum þá verðum við að ná að tryggja forystu okkar á Norðurlöndunum með sama hætti og við gerðum á Íslandi og mun fyrirtækið fjárfesta í þessari uppbyggingu.

Yfirlýsing Jón Ágústs má finna í heild sinni í tilkynningu félagsins.