Hagnaður Iceland Seafood International nam 1,5 milljónum evra, eða sem samsvarar um 251,3 milljónum íslenskra króna, á fyrri hluta ársins, sem er nærri 65% samdráttur frá 4,2 milljóna evru hagnaði sama tíma árið 2019.

Tekjur félagsins drógust saman um 21,1% frá sama tímabili í fyrra, úr 232,1 milljón evra í 183,2 milljónir evra, meðan rekstrargjöldin drógust í heildina saman um 20,5%, úr 223,8 milljónum evra í 177,9 milljónir evra.

EBITDA félagsins dróst saman um 63% milli ára, úr tæplega 5,4 milljónum evra í tæplega 2 milljónir evra, meðan Rekstrarhagnaðurinn, EBIT, lækkaði um nærri helming, úr 6,8 milljónum evra í ríflega 3,6 milljónir evra.

Eigið fé félagsins jókst frá upphafi árs til 30. júní um 3,2%, úr 80,2 milljónum evra í 82,8 milljónir evra, meðan skuldirnar jukust um fimmtung, úr 129,2 milljónum evra í 154,9 milljónir evra. Þar með jukust eignir félagsins um 13,5%, úr 209,5 milljónum evra í 237,7 milljónir evra, og eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 38,3% í 34,8%.

Bjarni Ármannsson er forstjóri ISI, en félag hans Sjávarsýn er eigandi 11% í félaginu, en aðrir stórir hluthafar eru allir með 10% eignarhlut, það er Nesfiskur ehf., FISK Seafood ehf., og Jakob Valgeir ehf., en allir áttu þessir aðilar 11% í ársbyrjun.