Hagnaður sex stærstu verktakaog byggingarfyrirtækja landsins nam samtals um 2,8 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 15% frá árinu 2017. Fyrirtækin sem um ræðir eru Íslenskir aðalverktakar (ÍAV), Ístak, Þingvangur, ÞG verktakar, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG) og Eykt. Afkoman batnaði milli ára hjá þremur fyrirtækjanna á meðan hún versnaði hjá hinum helmingnum.

ÍAV hagnaðist um 40 milljónir króna á síðasta ári og batnaði afkoma félagsins um 159 milljónir króna frá árinu 2017 þegar það skilaði 119 milljóna tapi. Mest hagnaðaraukning var hjá Ístak eða 336 milljónir króna en hagnaður síðasta árs nam 529 milljónum króna. Þess ber að geta að reikningsár Ístaks fyrir síðasta ár nær frá október 2017 til loka september 2018.

Þingvangur skilaði 59 milljóna hagnaði sem dróst saman um 33 milljónir frá fyrra ári. ÞG verktakar högnuðust um 551 milljón sem var þó 211 milljónum minna en árið á undan á meðan BYGG var það félag sem skilaði mestum hagnaði á síðasta ári eða 1.556 milljónum króna og jókst um 188 milljónir frá fyrra ári. Þá skilaði Eykt 108 milljóna hagnaði og dróst saman um 66 milljónir milli ára.

Veltan jókst um fimmtung

Alls námu tekjur fyrirtækjanna sex um 63,9 milljörðum króna og jukust um 10,7 milljarða á milli ára. ÍAV er stærsta verktaka- og byggingarfyrirtæki landsins miðað við veltu en tekjur þess námu 14,1 milljarði á síðasta ári og jukust um tæplega 400 milljónir á milli ára. Tekjur Ístaks námu rúmlega 13,1 milljarði og jukust um 2,7 milljarða, hjá ÞG verktökum námu þær rétt rúmum 10 milljörðum og drógust saman um tæplega 1,2 milljarða frá árinu á undan. Mestur tekjusamdráttur var hjá BYGG en þar drógust tekjur saman um 1,7 milljarða og námu 8,8 milljörðum króna. Mest aukning var hins vegar á tekjum Þingvangs sem ríflega sjöfölduðust milli ára og námu 9,4 milljörðum króna þegar matsbreyting fjárfestingareigna hefur verið dregin frá rekstartekjum. Þá námu tekjur Eyktar 8,4 milljörðum og jukust um ríflega 2,3 milljarða á milli ára.

Rekstarhagnaður (hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta, EBIT) fyrirtækjanna jókst um 26% á síðasta ári og nam rúmlega 4,8 milljörðum króna. Rekstarhagnaður ÍAV nam 226 milljónum og jókst um 446 milljónir milli ára, hjá Ístaki nam hann 739 milljónum og jókst um 267 milljónir. Þrátt fyrir að hagnaður Þingvangs hafi dregist saman á síðasta ári jókst rekstrarhagnaður félagsins um 347 milljónir á milli ára og nam 621 milljón en það kemur að hluta til af því að nettó fjármagnsgjöld voru 388 milljónum króna lægri hjá félaginu árið 2017 heldur en á síðasta ári.

Rekstrarhagnaður ÞG verktaka dróst saman um þriðjung og nam 609 milljónum króna en hjá BYGG jókst hann um 308 milljónir og nam ríflega 2,4 milljörðum króna. Þá nam rekstrarhagnaður Eyktar 158 milljónum og dróst saman um 72 milljónir á milli ára.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .