Fasteignafélagið Kaldalón hagnaðist um 266 milljónir króna á fyrri hluta ársins en 32 milljónir á sama tímabili árið áður. Rekstrartap félagsins jókst hins vegar milli ára úr 53 milljónum í 63 milljónir þar sem engar rekstrartekjur eru skráðar.

Rekstrargjöld félagsins innihalda laun og launatengd gjöld, sem nam 28 milljónum á fyrri hluta árs en engu á síðasta ári, og skrifstofu- og stjórnunarkostnaði sem nam 35 milljónum.

Hvað varðar afkomu félagsins munar mestu um gangvirðisbreytingar félagsins sem voru jákvæðar um 288 milljónir á fyrri hluta árs en jákvæðar um 42 milljónir á sama tímabili fyrir ári.

Vaxtatekjur jukust á milli ára og námu 89 milljónum og vaxtagjöld sömuleiðis og námu 46 milljónum. Engin breyting var á handbæru fé félagsins á tímabilinu þar sem fjármögnunarhreyfingar vógu upp á móti neikvæðu handbæru fé frá rekstri og neikvæðu handbæru fé vegna fjárfestingahreyfinga.

Heildareignir félagsins nema nú tæplega sex milljörðum króna en voru 5,6 milljarðar í upphafi árs. Þar af eru 2,4 milljarðar vegna eignarhluta í dótturfélögum og milljarður vegna lána til tengdra aðila. Eigið fé félagsins var 4,4 milljarðar í lok fyrri hluta árs og eiginfjárhlutfall félagsins 75%.

Munu fimmfalda hagnað sinn

Fram kemur að félagið hafi uppfært afkomuspá sín til fjögurra ára, sökum þróunar og fyrirséðrar seinkunar á verkefnum sem rekja má til heimsfaraldursins. Félagið áætlar að hagnast um 370-430 milljónir króna á þessu ári en 1.560-1.820 milljónir á því næsta.

Félagið gerir svo ráð fyrir 1.810-2.120 milljóna króna hagnaði árið 2022 og 1.940-2.260 milljóna hagnaði 2023. Því er áætlað að hagnaður félagsins fimmfaldist á næstu þremur árum.

Félagið metur sem svo að markaðsaðstæður séu nú góðar fyrir félagið. Mikil eftirspurn af íbúðum og fyrirséð hóflegt framboð af nýju íbúðarhúsnæði muni gera það að verkum að markaðsaðstæður verði hagfelldar þegar vaxandi hluti íbúða Kaldalóns kemur á markað á næstu árum. Á núverandi lóðum félagsins er reiknað með uppbyggingu um það bil 1.000 íbúða.