Hagnaður Mastarcard nam 2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur rúmlega 243,3 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, sem er umfram væntingar. Jókst hagnaðurinn um 30,5% frá fyrra ári þegar hann nam 1.569 milljónum dala, en á sama tíma dróst kostnaður félagsins eilítið saman, úr 1.729 milljónum dala í 1.716 milljónir dala.

Jukust tekjur félagsins um 12%, úr 3,7 milljörðum dala í 4,1 milljarð dala á ársfjórðungnum frá fyrra ári, vegna aukinnar eyðslu almennings í Bandaríkjunum og víðar, en færslur með kreditkortum félagsins jukust um nærri 21% og námu þær um 26,8 milljörðum færslna. Fjölgun færlsnanna var þó 10% í Bandaríkjunum en tók 31% stökk í Evrópu.

Heildarviðskiptin með kort félagsins jukust á tímabilinu um 8,3% frá fyrra ári, í 1,6 billjónir dala (1,6 trilljón miðað við enska orðalagið sem er 1.600 milljarðar í öðrum tungumálum), eða sem samsvarar 194.656 milljörðum króna, það er 194,7 billjónum króna.